Brjóturinn: klasaverkefni á Suðureyri

Fulltrúar frá Íslenskum verðbréfum, Fisherman, Íslandssögu og Klofningi, mættu til fundar við bæjarráð í fyrradag, í gegnum fjarfundarbúnað, til að ræða mögulega staðsetningu sláturhúss á Suðureyri fyrir slátrun eldisfisks frá ÍS-47, og Hábrún. Kynntu þeir klasaverkefnið á Suðureyri sem nefnist Brjóturinn.

Tilgangur verkefnisins er að greina hvernig best væri að efla og tengja saman laxeldi, fiskvinnslu og ýmsa fiskeldistengda þjónustu á Suðureyri.

Sérstaklega var horft til þeirra tækifæra sem eru á Suðureyri í Súgandafirði og þann mögulega ávinning sem næðist í tengslum við þriggja hektara landfyllingu við Brjótinn vestan við bæinn. Vinnuheiti þessa verkefnis er einmitt „Brjóturinn – Klasaverkefni á Suðueyri“ og vísar til staðsetningarinnar.

Í inngangi skýrslunnar segir:

„Ekkert laxeldi er fyrirhugað í Súgandafirði en á móti er framúrskarandi aðstaða á Brjótnum fyrir laxaslátrun og framhaldsvinnslu á laxi. Það getur einnig skipt máli fyrir önnur nálæg eldissvæði á borð við Önundarfjörð og Ísafjarðardjúp þar sem umræða hefur verið um að byggja upp laxeldi á forsendum lífrænnar ræktunnar. Spennandi nýtt
vaxtarsvið laxeldis þar sem afurðaverð er mun hærra en sést hefur í hefðbundnu laxeldi.“

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

Landfylling við Brjótinn

Fisherman gekk frá samningi við Ísafjarðarbæ um uppbyggingu á landfyllingu við Brjótinn á Suðureyri í apríl 2020 og liggur framkvæmdaleyfi fyrir í dag.

Gert er ráð fyrir 30.000 m2 landfyllingu sem verður framkvæmd í allt að þremur áföngum. Samtals þarf um 100.000 m3 af jarðefni til uppfyllingar. Mest af efninu kemur úr skeringum sunnan við landfyllinguna.


Framkvæmdin er unnin á vegum Fisherman sem mun á sinn kostnað annast nauðsynlega landfyllingu á svæðinu og kosta og hafa umsjón með vegagerð um svæðið. Þá mun framkvæmdaaðilinn einnig leggja rafstreng og vatnslagnir frá svæðinu til skilgreindra tengipunkta á Suðureyri og mun jafnframt ganga frá fráveitukerfi fyrir svæðið. Á móti kemur að Ísafjarðarbær fellur frá öllum gjöldum sem vanalega tengjast þessum þáttum.

Gert er ráð fyrir að landfyllingin verði gerð í nokkrum skrefum í takt við eftirspurn eftir lóðum undir iðnaðar- og atvinnuhúsnæði.


Þá er kveðið á í samkomulaginu að uppbygging hafnarsvæðisins í kringum uppfyllinguna sé háð framlögum ríksisins til hafnarmála og framkvæmda í höfnum.

Ísafjarðarbær mun ekki hefja hafnarframkvæmdir á svæðinu nema með aðkomu ríksins. Samningsaðilar voru sammála að vinna sameiginlega að því að tryggja aðkomu ríkisins að nauðsynlegum framkvæmdum svo fljótt sem auðið er.

Næstu skref

  1. Ganga frá samkomulagi við þá aðila sem hafa áhuga á að byggja upp starfsemi á iðnaðarsvæðinu við Brjótinn.
  2. Á grundvelli þess samkomulag þarf að leita til Ísafjarðarbæjar um stuðning við að flýta hafnargerð í tengslum við Brjótinn.
  3. Þegar það samkomulag liggur fyrir er hægt að hefja framkvæmdir með það fyrir augum að svæðið verði tilbúið til uppbyggingar haustið 2022.
DEILA