Bolungavíkurlína 1 verður færð vegna bilana

Landnet hefur uppi áform um að færa Bolungavíkurlínu 1 á liðlega 2 km löngum kafla til þess að auka afhendingaröryggi línunnar. Línan er 66 kV tréstauralína og liggur milli tengivirkja í Breiðadal í Önundarfirði og
Bolungavíkur.

„Á hluta leiðarinnar getur staðbundin snjósöfnun við línuna orðið óvenju mikil ásamt umtalsverðri skýjaísingu sem gera rekstur línunnar erfiðan og óáreiðanlegan. Erfiðasti kaflinn sem um ræðir er ríflega 1.000 m langur um Hestakleif. Framkvæmdin felur í sér endurbyggingu loftlínunnar á 2.250 m kafla, um Svarthamrahvilft á sveitarfélagsmörkum Bolungarvíkur og Ísafjarðar.“ segir í skýrslu VSÓ sem gerð var fyrir Landsnet.

Áformin hafa verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun um það hvort framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat. Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að málsmeðferðin verði heimiluð og telur að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni skv. meðfylgjandi tilkynningu og skýrslu VSÓ og að hún þurfi ekki í umhverfismat.

40 ára gömul lína í 730 m hæð

Markmið framkvæmdar er að auka afhendingaröryggi á svæðinu. Aðstæðum er þannig lýst í skýrslunni:

„Bolungarvíkurlína 1 liggur að hluta til um krefjandi og hálent svæði þar sem vænta má mikils álags frá vindi og ísingu. Hæst liggur línan í ríflega 730 m.y.s. um Hestakleif vestan við Kistufell. Linan er ein þeirra loftlína sem liggja hvað hæst yfir sjó í flutningskerfinu á Íslandi. Erfiðasti kaflinn er ríflega 1 km langur. Á þessum kafla getur staðbundin snjósöfnun við línuna verið óvenju mikil ásamt því að skýjaísing getur verið umtalsverð sem gerir rekstur línunnar erfiðan og óáreiðanlegan. Línan, sem er 66 kV tréstauralína, var byggð árið 1979 og hefur ekki verið breytt mikið síðan þá en einstakir hlutar hennar hafa verið styrktir.“

DEILA