Bolungavík: ekki tímabært að sameina sveitarfélögin

Bæjarráð Bolungaíkurkaupstaðar telur ekki tímabært að svo komnu máli að hefja viðræður um sameiningu sveitarfélaga samkvæmt tillögu sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps. En hún leggur til að átta sveitarfélög á Vestfjörðum, þ.e. öll nema Ísafjarðarbær, hefji óformlegar viðræður um sameiningu þeirra.

Í bókun bæjarráðsins segir að það telji engu að síður mikilvægt að sveitarfélög á Vestfjörðum haldi áfram að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum og þeim verkefnum sem þegar eru til staðar í samvinnu eins og Vestfjarðastofa, Byggðarsamlag um málefni fatlaða og samvinna í málefnum fiskeldis svo fátt eitt sé nefnt.

“ Gott samstarf er gríðarlega mikilvægt fyrir framgang sveitarfélaga á Vestfjörðum og lýsir bæjarráð Bolungarvíkur yfir vilja til að halda slíku samstarfi áfram af auknum krafti.“

DEILA