Árneshreppur og vetrarþjónusta á Vestfjörðum

Málefni Árneshrepps hafa fengið nokkra athygli í nóvember og blessunarlega hefur loksins nokkur árangur náðst í áratuga löngu baráttumáli um að afnema svokallaða G- reglu um snjómokstur,  sem felur í sér að ekki er mokað í Árneshrepp mánuðum saman yfir veturinn. Um þetta hefur verið ítrekað ályktað, rætt við Vegagerðina, þingmenn og ráðherra. Um leið og við fögnum því að loks hafi náðst sá árangur að farið er í „tilraunaverkefni“! í vetur þar sem mokað verður tvisvar í viku, furðum við okkur á því hve mikið átak þurfti til að afnema það sem ekki getur talist annað en mannréttindabrot gagnvart íbúum Árneshrepps.

Á sama degi og fréttir bárust af afnámi G reglu var jafnframt tilkynnt að þriggja fasa rafmagn hefði verið tengt í Djúpavík og á næsta ári verði lokið við tengingu í aðra hluta byggðarinnar auk ljósleiðara. Að auki fundaði Vegagerðin í Árneshreppi nú lok nóvember til að kynna vinnu við hönnun og stöðu umhverfismats fyrir vegagerðar um Veiðileysuháls. Þessari framkvæmd hefur ítrekað verið seinkað við afgreiðslu Alþingis á samgönguáætlun á síðustu tíu árum, en verkefnið er nú sett á áætlun 2024 og 2025.  Allt bendir til að undirbúningi fyrir útboð verði lokið á árinu 2022 og það væri stjórnvöldum í lófa lagið að flýta verkefninu og tefja þessa framkvæmd ekki meir.

Baráttan um mokstur í Árneshreppi beinir sjónum að baráttu um vetrarþjónustu á vegum almennt. Nokkuð ljóst er að til þess að atvinnusvæðin á Vestfjörðum geti virkað sem slík þarf að minnsta kosti þrenn jarðgöng, nokkrar framkvæmdir á vegum og lagfæringar á Breiðadalslegg Breiðadals og Botnsheiðarganga.

Gera má ráð fyrir að nokkrir vetur líði þar til öll þau göng sem hér eru nefnd verða komin á Samgönguáætlun, hvað þá tilbúin. Þangað til þarf vetrarþjónustu sem er í takt við samfélag og atvinnulíf. Fólk þarf að komast, óttalaust, milli byggðakjarna bæði í starf og leik. Börn þurfa að komast á tómstunda- og íþróttaæfingar milli byggðakjarna, allir þurfa að sækja heilbrigðisþjónstu og verslun. Fólk þarf að komast til vinnu og sækja menningarviðburði svo nokkur atriði séu nefnd.

Þeir vegir sem um ræðir eru margir jafnframt stofnvegir sem verðmætar útflutningsafurðir Vestfjarða eru fluttar um. Þegar Súðavíkurhlíðin, Mikildalur og Hálfdán lokast snýst það bæði um fólk og flutninga.

Við skulum ekki leyfa áratugum aðgerðaleysis að líða án þess að vetrarþjónustan á Vestfjörðum verði stórbætt. 

Sigríður Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðstofu

DEILA