Arctic Fish í viðræðum um laxasláturhús í Bolungavík

Fiskmarkaðurinn í Bolungavík. Mynd: Björgvin Bjarnason.

Samningaviðræður eru í gangi milli Arctic Fish og Jakobs Valgeirs ehf f.h. FMBS um kaup þess fyrrnefnda á nýju 1000 fermetra húsi á Brjótnum í Bolungavík sem verið er að leggja lokahönd á undir starfsemi fiskmarkaðarins. Stefnt er að því að ganga frá samningum í næstu viku. Ætlun Arctic Fish mun vera að starfrækja laxasláturhús í Bolungavík.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta mun Fiskmarkaðurinn áforma að byggja annað hús á Brjótnum undir sína starfsemi í stað þess sem selt yrði.

Stein Ove Tveiten forstjóri Arctic Fish sagðist í svari við fyrirspurn Bæjarins besta virða það að mikill áhugi væri á staðsetningu nýs sláturhúss en sagðist ekki geta sagt neitt um það fyrr en eitthvað væri handfast. Sagðist hann vonast til þess að fljótlega yrði komin niðurstaða.

Eftir því sem næst verður komist stefnir nú í að reist verði tvö sláturhús á Vestfjörðum í stað eins. Kemur þar m.a. til að veirusýkingin í eldiskví í Reyðarfirði hafi þau áhrif að skynsamlegra sé nú talið að hafa tvö sláturhús í stað eins ef sams konar sýking kæmi upp á Vestfjörðum.

Athygli vekur að á síðasta bæjarráðsfundi í Bolungavík var tekið fyrir mál og bókað í trúnaðarmálabók og að formaður bæjarráðsins Baldur Smári Einarsson, starfsmaður Arctic Fish, vék af fundi á meðan. Þykir það renna stoðum undir þann grun að um hafi verið að ræða málefni tengt Arctic Fish.

Grunnur að nýju húsnæði Fiskmarkaðarins í Bolungavík í júlí í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA