22 kílómetrar

Líkt og mörg sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum þarf ég að vera mikið á ferðinni eftir veginum sem tengir okkur við umheiminn, þjóðveg 60. Í einni slíkri ferð núna um daginn heyrði ég í fréttatíma einhverrar útvarpsstöðvarinnar fjallað um ákvörðun sveitastjórnar Reykhólahrepps um veghelgunarsvæði um Teigsskóg. Sveitarstjórnin var að samþykkja breytingu á skipulagi þannig að hægt verði að fara í vegaframkvæmdir á þessu umdeilda svæði. Fréttaþulurinn endaði fréttina á því að segja að framkvæmdin stytti leiðina til Ísafjarðar um 22 kílómetra.

Þarna kipptist ég við og fannst gert lítið úr mikilvægi þessarar langþráðu vegaframkvæmdar. Það sem fréttaþulurinn minntist ekki á var hvað að þessir 22 kílómetrar skipta miklu máli fyrir fólk og fyrirtæki á Barðaströnd, Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Hvað það er dýrmætt að taka úr umferð nærri jafn langan kafla gamalla malarvega sem liggja yfir tvo fjallahálsa sem geta orðið illfærir yfir vetrartímann. Minntist ekki atvinnubílstjórana sem hafa þurft að kljást við Ódrjúgshálsinn í vetrarham, foreldrana sem þurfa að bruna suður með barnið sitt undir læknishendur, fyrirtækið sem þarf að koma framleiðslu sinni á markað eða háskólanemann sem þarf að komast í skólann sinn. Minntist heldur ekki á að þessi framkvæmd er bara ein af mörgum nauðsynlegum í vegakerfinu á Vestfjörðum. Minntist ekki á að hér liggur samgönguöryggi heils landshluta undir.

Fréttaþulurinn var samt ekki að segja neitt rangt. Leiðin til og frá Ísafirði styttist sannarlega um 22 kílómetra og það er frábært. Það er bara ekki það sem okkur efst í huga sem eigum einna mest undir í þessum brýnu og löngu tímabæru vegaframkvæmdum um Teigsskóg.

Ólafur Þór Ólafsson

sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

DEILA