Vesturbyggð hafnar kröfu Samgöngufélagsins varðandi þverun Vatnsfjarðar

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur hafnað kröfu Samgöngufélagsins sem fór fram á að bæjarstjórnin tæki til endurskoðunar synjun sína um þverun Vatnsfjarðar. Verið er að vinna að ákvörðun á veglínu fyrir nýjan veg um Vatnsfjörð og ákvað bæjarstjórnin í september að hafna hugmyndum um þverun fjarðarins.

Samgöngufélagið kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og gerir þá kröfu að lagt verði fyrir sveitarstjórn að annað hvort taka ákvörðunina upp að nýju og byggja hana á frekari gögnum og upplýsingum og láta fylgja henni veigameiri rökstuðning en gert var eða, sem Samgöngufélagið telur e.t.v. heppilegra í stöðunni að fresta ákvörðun um legu vegarins í aðalskipulagi þar til endanlega er ljóst hvaða veglína af þeim sem koma til greina inn fjörðinn telst heppilegust.

Kæran ótímabær

Í umsögn Vesturbyggðar til úrskurðarnefndarinnar um kæruna segir að ákvörðunin um að hafna þveruninni sé byggð á umsögnum Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Breiðafjarðarnefndar sem allar séu andvígar þverun. Niðurstaða bæjarstjórnar sé byggð á þeim og matsskýrslu Vegagerðarinnar sem sýni að endurbygging vegarins fyrir fjörðinn hafi minnst umhverfisáhrif í för með sér og að vegstyttingin sem þveruninni fylgir sé ekki það mikil að hún vegi meira en umhverfisáhrifin.

Ákvörðunin sé tekin að vel athuguðu máli enda byggir ákvörðunin á upplýsingum og gögnum sem nú eru fyrirliggjandi um áhrif þverunar á Vatnsfirði.

Bæjarstjórnin bendir á í umsögn sinni að ekki hafi verið valið milli þriggja valkosta um veglínu fyrir Vatnsfjörðinn og því sé málinu ekki endanlega lokið, en lætur þó koma fram að kostur A1 sé álitlegastur.

Þá ákvörðun um leiðarval í Vatnsfirði þarf að taka í samráði við meginhagsmunaaðila, Umhverfisstofnun, Breiðafjarnefnd og Vesturbyggð. Samráði er ekki lokið og í framhaldi af þeirri vinnu þarf að vinna breytingar á aðlaskipulagi Vesturbyggðar.
Að mati bæjarstjórnar er því umrædd kæra til nefndarinnar ótímabær.

DEILA