Vestfjarðavegur 60: Landvernd og Gunnlaugur Pétursson kvarta til Bernar

Samkvæmt upplýsingum sem Bæjarins besta fékk frá Umhverfisráðuneytinu í gær eru það Landvernd og Gunnlaugur Pétursson, verkfræðingur sem kvörtuðu til skrifstofu Bernarsamningsins, samnings um vernd villtra dýra, plantna og búsvæða í Evrópu.

Báðir aðilar hafa beitt sér árum saman hart gegn Þ-H leiðinni um Gufudalssveit.

En einnig hefur skrifstofan, að eigin frumkvæði, ákveðið að kanna hvernig framkvæmdin almennt samræmist skyldum Íslands gagnvart samningum. Í skýringum ráðuneytisins til Reykhólahrepps í sumar segir að Skrifstofa Bernarsamningsins hafi óskað eftir því að ráðuneytið verði skrifstofunni innan handar við frekari upplýsingaöflun þar um, þar með talið mögulega upplýsingafundum með sérfræðingum og öðrum hlutaðeigandi og er málið í vinnslu hjá ráðuneytinu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og stofnanir þess hafa á undanförnum árum upplýst skrifstofu Bernarsamningsins um málið segir í erindi ráðuneytisins til Reykhólahrepps í júlí sl.

„Í ljósi frétta um að samkomulag hafi náðst við landeigendur Grafar í Þorskafirði óskar ráðuneytið eftir upplýsingum um stöðu framkvæmdarinnar í dag, m.a. um þær aðgerðir sem til stendur að fara í til að lágmarka umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Óskað er eftir upplýsingum frá Vegagerðinni og Reykhólahreppi.“

DEILA