Verkvest hvetur bæjaryfirvöld til þess að byggja leiguíbúðir í samstarfi við Bjarg

Í lok september áttu formaður og varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, þeir Finnbogi Sveinbjörnsson og Bergvin Eyþórsson fund með bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um skort á hagkvæmu leiguíbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu sem væri hamlandi fyrir atvinnuuppbyggingu og fólksfjölgun.

Tóku þeir að sér að hitta forsvarsmenn Bjargs íbúðafélags og koma á samtali milli þess og Ísafjarðarbæjar. Með bréfi til bæjarráðs gerðu þeir grein fyrir fundi sínum með framkvæmdastjóra Bjargs.

Þar kom fram að Bjarg er tilbúið til samstarfs og að stærðarhagkvæmni félagsins, sem hefur byggt um 500 íbúðir víða um land, skilar sér í lægra leiguverði. Framkvæmdastjóri Bjargs telur að aðrir byggingaraðilar sem sveitarfélög hafa samið við svo sem Bríet leigufélag og Hrafnshóll skila of háu leiguverði. Hagkvæmast er að byggja tveggja hæða fjölbýli ( 12 íbúðir) eða raðhús á einni hæð.

Kvetja þeir Finnbogi og Bergvin til þess að bæjarráð ræði við Bjarg um uppbyggingu á hagkvæmu leiguhúsnæði.

Bæjarráð lýsti áhuga á samstarfinu og fól bæjarstjóra að vinna málið áfram.

DEILA