ÚUA: vísaði frá kæru gegn koparnótum

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál vísaði í fyrradag frá kæru náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Íslenska náttúruverndarsjóðsins (IWF) með þeim rökum að engan lagagrundvöll væri að finna fyrir því að kærendur ættu rétt á því að kæra.

Kærendurnir höfðu kært þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 2. júní 2021 að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði þannig að heimila notkun koparnóta. Var þess krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi.

Forsagan er sú að betra þykir að nota eldisnætur með koparoxíði sem ásætuvörn í kvíunum. Fyrirtækið sótti um breytingu á starfsleyfinu svo nota mætti koparoxíðið og Skipulagsstofnun féllst á að breytingin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og þyrfti því ekki að fara í umhverfismat. Sú ákvörðun var kærð til Úrskurðarnefndarinnar sem komst að þeirri niðurstöðu í september á þessu ári að Skipulagsstofnun hefði rökstutt ákvörðun sína nægjanlega og hafnaði ógildingarkröfunni.

Eftir að Skipulagsstofnun hafði samþykkt að breytingin þyrfti ekki að fara í umhverfismat breytti Umhverfisstofnun að undangenginni auglýsingu þegar gildandi starfsleyfi Arnarlax. Sú breyting var kærð til nefndarinnar sem svo vísaði kærunni frá eins og fyrr segir.

Í rökstuðningi nefndarinnar segir að eldið sem starfsleyfið veitir hafi farið í gegnum umhverfismat og þar hafi umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök  kærurétt. Nú sé aðeins um að ræða breytingu á starfsleyfinu og að Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að breytingin þurfi ekki að fara í sjálfstætt umhverfismat. Segir í úrskurðinum að matsskyldan ráði því hvort almenningur fái frekari rétt og njóti kæruréttar. Án umhverfismats eigi kærendur engan kærurétt og var því kærunni vísað frá.

DEILA