Uppskrift vikunnar – fiskibollur

Heimatilbúnar fiskibollur er eitt það besta sem ég fæ og mér finnst mjög gott að gera þessa uppskrift tvöfalda og eiga fiskibollurnar í frysti. Alveg yndislegt ef maður nennir ekki að elda.

Það eru mjög skiptar skoðanir hvaða meðlæti er best, persónulega finnst mér brúnsósa og salat langbest með en karrýsósa er líka mjög vinsæl.

Ég hef eiginlega ekki hugmynd hvaðan uppskriftin kemur en mig grunar að hún komi nú bara úr reynslubankanum hjá ömmu.

Uppskrift

1.2 kíló ýsa eða þorskur (eða svosem hvaða hvíta fisk sem ykkur líkar)

2 tsk salt

Dálítill pipar

4 msk hveiti

3 msk kartöflumjöl

2 egg

1 laukur

ca 4 dl mjólk

smjör til steikingar

Fiskurinn hakkaður ásamt lauknum. Hveiti, karöflumjöli, salti, pipar og eggjum bætt út í fiskhakkið. Að lokum er mjólkinni bætt út í. Best finnst mér að smakka farsið bara til og bæta þá kryddi við ef vantar. Bollur mótaðar, mjög gott að nota ísskeið til að móta bollurnar og þær steiktar upp úr smjörinu á pönnu. Þegar fiskibollurnar hafa náð góðum lit set ég þær í eldfast mót í ofn í við ca. 170 gráður.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir

DEILA