Teigsskógur: kvartaði til Bernar og vill stöðva framkvæmdir

Annar þeirra sem hefur kvartað til skrifstofu Bernarsamningsins í Strassborg er Gunnlaugur Pétursson, verkfræðingur. Hann segir í erindi sínu til skrifstofunnar, sem sent var á síðasta ári, að veglínan sé að mestu óbreytt í aðalskipulagi Reykhólahrepps , og vegurinn muni þvera tvo firði Gufufjörð og Djúpafjörð og fara eftir Teigsskógi.

Fer Gunnlaugur fram á að Skrifstofa Bernarsamningsins bregðist fljótt við svo hægt verði að stöðva áformin og velja aðra veglínu.

Erindi Gunnlaugs var tekið fyrir á fundi fastanefndar samningsins um mánaðamótin nóvember/ desember í fyrra ásamt bréfi frá Náttúrufræðistofnun Íslands frá ágúst 2020 þar sem staðfest er lýsing Gunnlaugs á framvindu málsins og minnt á fyrri bréf stofnunarinnar og Skipulagsstofnunar með afstöðu stofnananna til framkvæmdarinnar.

Fram kemur að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi í apríl 2018 lagt til við Umhverfisráðuneytið að svæðið sem vegurinn fer um og nokkur önnur á Íslandi verði skilgreint sem sérstakt verndarsvæði, svokölluð Emerald Network sites. Harmað er að tekið hafi Umhverfisráðuneytið lengri tíma en áformað var að koma verndaráætlunni áfram.

Emerald svæði eru sérstök verndarsvæði sem sett upp samkvæmt ákvæðum Bernarsamningsins og færist stjórnun þeirra undir forræði stjórnvalda á landsvísu.

Fastanefndin ákvað í fyrra að óska eftir stöðuskýrslu um framkvæmdina, sem nú liggur fyrir eftir afgreiðslu Reykhólahrepps. Þá var farið fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til stöðuskýrslan lægi fyrir.

Fastanefndin heldur árlegan fund sinn í næstu viku og verður málið á dagskrá fundarins. Fastanefndin og Bernarsamningurinn eru hluti af Evrópuráðinu og stofnunum þess. Í Evrópuráðinu eru 45 Evrópulönd sem eiga samstarf á mörgum sviðum.

DEILA