Tálknafjörður: skipulagsbreytingar vegna nýrrar seiðaeldisstöðvar

Sveitarstjórn Tálknafjarðar hefur samþykkt að auglýsa aðalskipulagsbreytingar við Norður Botn í Tálknafirði og einnig samþykkt kynningu á deiliskipulagsbreytingu í Norður Botni vegna nýrrar seiðaeldisstöðvar.

Byggingarmagn á byggingarreit I, Norður-Botn fer úr 8.000 m² í 40.000 m² og hámarks ársframleiðsla fer úr 200 tonnum í 2.200 tonn.

3,5 milljarður króna – 4,2 MW varaafl

Það er Arctic Fish sem stendur fyrir byggingu nýrrar seiðaeldisstöðvar í Norður Botni. Kostnaðaráætlun er upp á um 3,5 milljarða króna. Um er að ræða 4.200 fermetra nýbyggingu með samanlagt um 7.200 rúmmetra kerjarými. Eftir stækkunina verður hægt að ala um 1.000 tonn af seiðum í stöðinni árlega eða sem samsvarar um fimm milljónum 200 gramma stórra seiða. Úr þeim fjölda ætti að vera hægt að ala um það bil 25.000 tonn af laxi í sláturstærð.

Framkvæmdir eru hafnar og búið að setja upp vinnubúðir og um 20 manns eru þar nú að störfum.  Gert er ráð fyrir að verktími verði um tvö ár og gera má ráð fyrir að um 40-50 manns muni koma að verkinu á framkvæmdatíma. Verktakafyrirtækið Eykt mun sjá um að hanna og reisa bygginguna en norska fyrirtækið Eyvi mun afhenda og setja upp allan búnað og tæki, s.s. vatnshreinsikerfi. Vatnið er endurnýtt og hreinsað til að hámarka vatnsgæði og velferð seiðanna. Við stöðina verður reist varaaflstöð með þremur 1,4 MW varaaflsvélum sem Aflhlutir ehf. mun afhenda og setja upp.

Um fimmtán manns vinna í seiðaeldisstöð félagins og mun þeim fjölga lítillega við umrædda stækkun. 

DEILA