Skipulagsstofnun: gerir eigin fyrirmæli ófullnægjandi

Skipulagsstofnun gaf út fyrirmæli sumarið 2017 til fiskeldisfyrirtækja og opinberra stofnana þar sem fram kom að stofnunin myndi gera kröfu um að í umhverfismati fyrir fyrirhugað eldi yrði gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samrýmdist takmörkunum á framleiðslu eldislax sem fram komu í þá nýútgefnu áhættumati Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun milli villtra laxa og eldislaxa.

Áhættumatið hafði þá enga lagalega stöðu og umdeilanlegt var að stofnunin gæti sett þetta skilyrði , en tveimur árum síðar var það lögfest. Engu að síður hefur verið farið eftir þessum fyrirmælum Skipulagsstofnunar og umsækjendur um leyfi hafa gert grein fyrir áhrifum eldisins samkvæmt þeirri forskrift er að finna í áhættumatinu. Skipulagsstofun hefur svo fengið umhverfismatsskýrslu fyrir umbeðna framkvæmd og gefið grænt ljós fyrir sitt leyti á framgang leyfisumsóknarinnar.

Nú hefur Skipulagsstofnun með áliti frá 13. október sl komist að þeirri niðurstöðu að áhættumatið um erfðablöndun og reyndar líka burðarþolsmatið, falli undir lög um umhverfismat áætlana. Sú skoðun Skipulagsstofnunar hefur ekki komið fram áður þótt umrædd lög hafi verið sett árið 2006. Með þessu nýja áliti er stofnunin að segja að fyrirmæli hennar frá 2017 hafi ekki verið fullnægjandi og að ekki hafi verið fylgt lögum við gerð umhverfismats fyrir áhrif af viðkomandi eldi. Breytir það engu um afstöðu Skipulagsstofnunar að Atvinnuvegaráðuneytið lýsir sig ósammála þessari lagatúlkun.

Fyrir vikið eru útgefin leyfi til fiskeldis í uppnámi og úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur frestað afgreiðslu kærumála um eldisleyfi. Atvinnuvegaráðuneytið hefur brugðist við með því að auglýsa sem áætlanir burðarþolsmat og áhættumat fyrir þau svæði sem þau liggja fyrir og látið útbúa umhverfismatsskýrslu sem fylgir með. Þannig hyggst ráðuneytið uppfylla ákvæði laganna um umhverfismat áætlana.

Hver niðurstaðan verður er óljóst, þar ræðst af afstöðu úrskurðarnefndarinnar. Einn möguleikinn er að úrskurðarnefndin felli leyfin úr gildi þar sem umræddar áætlanir voru ekki settar í umhverfismat og annað sjónarmið er að það falli ekki undir verksvið úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þessa ágreiningsefnis. Það sé hlutverk Skipulagsstofnunar og ráðuneytis og þær ákvarðanir verði ekki kærðar til nefndarinnar. Þá myndi þessum rökum verða vísað frá.

Það er í meira lagi sérstakt að þetta uppnám í fiskeldismálunum er algerlega búið til af Skipulagsstofnun, sem kemst að þeirri niðurstöðu að eigin fyrirmæli frá 2017, sem vandlega hefur verið fylgt, séu í raun vandinn sem kunni að leiða til þess að öll útgefin leyfi verði felld úr gildi.

Þess ber þó að geta að úrskurðum úrskurðarnefndarinnar er hægt að skjóta til dómstóla þar sem þeim getur verið breytt.

-k

DEILA