Orkubú Vestfjarða ræðst í vottaða kolefnisbindingu

Elías Jónatansson orkubússtjóri og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar

Orkubú Vestfjarða hefur gert verksamning við Skógræktina um ráðgjöf vegna þróunar á kolefnisverkefni með skógrækt á þremur jörðum í Arnarfirði sem allar eru í eigu Orkubúsins. Samtals er ráðgert að rækta skóg á um 235 hekturum. Þar með er hafinn undirbúningur að fyrsta vottaða kolefnisbindingarverkefninu á Vestfjörðum.

Jarðirnar þrjár eru  Hjallkárseyri, Rauðstaðir og Borg í Arnarfirði. Í fyrsta áfanga verður unnið með 70 hektara svæði. Markmiðið er að til verði kolefnisbinding í skógrækt og náttúrlegu skóglendi og miðað er við að kolefnisverkefnið fullnægi kröfum Skógarkolefnis þannig að það sé tækt til vottunar óháðs vottunaraðila til skráningar í Loftslagsskrá Íslands.

Að sögn Elíasar Jónatanssonar, orkubússtjóra, fellur samningurinn vel að loftslagsstefnu Orkubús Vestfjarða þar sem markmiðið sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og minnka kolefnissporið með markvissum aðgerðum í rekstri og með því að binda kolefni með skógrækt og endurheimt votlendis. Orkubú Vestfjarða stefni að því að vera kolefnishlutlaust fyrirtæki árið 2030.

Byrjað á 70 hekturum

Hlutverk Skógræktarinnar er að veita Orkubúinu ráðgjöf um þróun verkefnisins og annað sem Orkubúið kann að óska ráðgjafar um. Byrjað verður á því að gera úttekt á möguleikunum og hagkvæmni þeirra. Í kjölfarið verður gerð ítarleg ræktunaráætlun þar sem skógræktarsvæði verður afmarkað á hnitsettum uppdrætti. Undirbúningsvinna Skógræktarinnar hefst í þessum mánuði og er gert ráð fyrir að henni ljúki haustið 2023.

Til að byrja með verður ráðist í skógrækt á um 70 hekturum lands en stefnt er að því að í fyllingu tímans nái skóglendið til um 235 hektara. Samhliða verkefnalýsingu fyrir kolefnisverkefnið verður gerð kolefnisspá fyrir svæðið og kostnaðaráætlun til 50 ára.

Mikilvægt að taka þátt í að draga úr losun

Þetta verkefni verður fyrsta vottaða kolefnisverkefnið sem ráðist er í á Vestfjörðum. En hvers vegna ræðst Orkubúið í slíkt verkefni nú og hvers vegna er það mikilvægt að fá vottun á bindinguna? Elías segir að það verði mikilvægara með hverjum deginum fyrir orkufyrirtæki að geta sýnt fram á að þau séu að taka fullan þátt í því með heimsbyggðinni allri að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Fyrirtækið er í almannaeigu og hefur þannig ríkar skyldur til að taka fullan þátt í stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Það er mikilvægt fyrir viðskiptavini Orkubúsins að þeir geti treyst því að stefnunni sé fylgt eftir og að kolefnisbindingin sé vottuð,“ segir Elías.

DEILA