Nýtt yfirbyggt tengivirki í Breiðadal í undirbúningi

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur fengið deiliskipulagstillögu frá Landsneti, vegna fyrirhugaðra framkvæmda við nýtt yfirbyggt tengivirki á lóð 1, í landi Veðrarár-Ytri í Önundarfirði og verður það staðsett við hlið núverandi tengivirkis.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Leggur nefndin til við bæjarstjórn að heimila málsmeðferð á tillögunni.

Framkvæmdin er í framkvæmdahluta (2021-2023) Kerfisáætlunar 2020-2029, sem hefur verið samþykkt af Orkustofnun, og er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets.

Í janúar 2020 sló rafmagni út á Vestfjörðum og helsta ástæða þess að rafmagn var jafn lengi úti var selta í tengivirki í Breiðadal í Önundarfirði. Með nýju yfirbyggðu tengivirki verður komist fyrir þennan vanda.

Breiðadalslína 1 liggur að tengivirkinu að vestan og Bolungarvíkurlína 1 og Ísafjarðarlína 1 liggja frá því til norðurs. Allar línurnar eru 66 kV loftlínur á vegum Landsnets. Ennfremur liggja jarðstrengir frá tengivirkinu um skipulagssvæðið en það eru háspennulínur á vegum Orkubús Vestfjarða.

Niðurstaða umhverfismats fyrir framkvæmdina er sú að framkvæmdir hafa óveruleg neikvæð áhrif en geta haft verulega jákvæð áhrif.

DEILA