Mýtur og áhrif á umræðu um atvinnuuppbyggingu

Í síðustu viku var haldin fiskeldisráðstefnan Lagarlíf en þar var málstofan „Staðleysur og áhrif þeirra á umræður um laxeldi” en þar flutti Guðrún Anna Finnbogadóttir verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu fyrirlesturinn „Mýtur og áhrif á umræðu um atvinnuuppbyggingu”.

Þar kom fram að umræðan um fiskeldi hefur verið mjög kröftug annarsvegar frá þeim sem eru á móti og hins vegar frá þeim sem eru hlynntir fiskeldi.  Upphrópanir hafa einkennt umræðuna og almenningur situr eftir og veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.

Vihorf til fiskeldis

Í viðhorfskönnun RHA sem unnin var haustið 2020 var sett fram staðhæfingin „tekjur sem fylgja fiskeldi gera sveitarfélögum kleift að halda uppi betri þjónustu við íbúa sína”. Þar eru 76% að meðaltali eru frekar eða mjög sammála en þegar tölurnar eru skoðaðar miðað við svæði eru það 63% á Sunnanverðum Vestfjörðum og 83% á Ísafirði sem er talsverður munur milli svæða en annað svæðið hefur nú þegar reynslu en hitt talar út frá væntingum.

Íbúum hefur fjölga á Vestfjörðum síðan 2016 en Vestfirðingar eru hlutfallslega eldri en landsmeðaltalið en á sunnanverðum Vestfjörðum er þó vöxtur í aldurshópnum 20-39 ára.

Fasteignamat hefur hækkaði á Vestfjörðum um 8,2% milli áranna 2020-2021. Í skýrslu KPMG kemur auk þess fram að fermetraverð í einbýli hækkaði um 84% frá 2015-2020 og um 75% í fjölbýli á sama tímabili.

Fjölga sérfræðistörfum

Þegar rætt er um sérhæfð störf er gott að skoða Hafrannsóknarstofnun sem dæmi. Í vor störfuðu 158 hjá stofnunni og störfin dreyfast þannig að 134 starfa í Hafnarfirði, ný starfsstöð hefur verið opnuð á Neskaupstað með 2 starfsmönnum, 6 á Vestfjörðum, 5 í fiskeldinu í Grindavík og 11 starfsmenn annarsstaðar á landinu.

Þetta er á tímum þar sem áhersla ríkisinns hefur verið að flytja störf á landsbyggðina, fjölgun starfa hefur ekki átt sér stað á Vestfjörðum hjá Hafró, þrátt fyrir vöxt í nýrri grein sem krefst mikilla rannsókna. Hafrannsóknarstofnun fær árlega um 70% af framlögum úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis.

Viðhorfið

Samkvæmt samtali við starfsfólk í sjókvíaeldi kemur fram að því finnst oft illa að sér vegið í umræðunni um dýravelferð því þeir eru að ala fisk og vilja gera það á besta mögulega máta. 

Það er allra hagur að fiskarnir séu heilbrigðir.

Það er allra hagur að hugsa vel um dýrin sem verið er að rækta.

Það er allra hagur að fiskarnir nái að vaxa.

Við þurfum hinsvegar að verða sammála um hvaða aðferðir uppfylla öll skilyrði um sjálfbærni um leið og við ölum upp heilbrigðan fisk til manneldis.

Það hafa verið gerðar margar kannanir um viðhorf til fiskeldis. RHA gerði viðhorfskönnun á Vestfjörðum í nóvember 2020 en þar var spurt ”Þegar á heildina er litið hversu jákvæður eða neikvæður ert þú gagnvart fiskeldi á þínu svæði?” Niðurstaðan er skýr 81% eru mjög eða frekar jákvæðir, 8% hvorki né og 11% mjög eða frekar neikvæðir. Af því má ætla að þegar á heildina er litið sjá Vestfirðingar tækifæri í fiskeldi.

Niðurstöður Gallup frá 2018 sýna að landsmenn voru jákvæðir í 46% tilfella, hvorki né í 24% tilfella og neikvæðir í 30% tilfella. Maskina gerði könnun á landsvísu fyrir Vísi í september 2021 þar sem spurt var ”Ertu hlynt(ur) eða andvíg(ur) laxeldi í sjókvíum við Ísland?” Þar eru allt önnur viðhorf eða 22% mjög eða fremur hlyntur, 30% í meðallagi og 48% mjög eða fremur andvígur.

Það er því ljóst að viðhorfið hefur breyst á þessum þremur árum hjá landsmönnum.

Hafnabótasjóður og framlög ríkisins vegna atvinnuuppbyggingar

Á Íslandi eru í gildi lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga þar sem ríkið kemur inn með fjármagn vegna atvinnuuppbyggingar. Í töflunni sem þið sjáið hér eru allar tölur miðaðar við verðlag þess tíma er framkvæmdirnar voru en þar má sjá að framlög ríkisins á Reyðarfirði numu 1.580 milljónum króna, framkvæmdir á Bakka 4.019 milljónir króna og í Helguvík 1.577 milljónir króna.  Þar sem það hefur verið  mikil uppbygging fiskeldis á Vestfjörðum hefur ríkið sett 265 milljónir króna í hafnarframkvæmdir á Bíldudal.

Atvinnugreinin skapar mjög fjölbreytt störf það er mikilvægt að öll flóra starfa verði til á Íslandi, og skapi þannig tækifæri fyrir fólk að nýta fjölbreytta þekkingu sína.  Til að tryggja umhverfisþáttinn þarf að sinna fjölda rannsókna sem nýtast okkur á fleiri sviðum vegna hlýnunnar sjávar eða við þróun nýrra atvinnugreina eins og þörungaræktar.

Fiskeldið er komið á þann stað hvað varðar tækni og þróun að það stendur mjög framarlega og allir kröfur hafa hækkað hjá fyrirtækjunum. Mikil fjárfesting hefur átt sér stað í sjókvíaeldi á Íslandi sem er vísbending um að eldið sé komið til að vera en á árinu 2020 voru framleidd yfir 20.000 tonn á Vestfjörðum. Fiskeldisfyrirtækin hafa hinsvegar vaxið og sjókvíaeldi á Íslandi er að verða 5% af vöruútflutningi þjóðarinnar.

Í hugum margra er greinin enn að slíta barnsskónum en á Vestfjörðum er hún líka búin að slíta unglingsskónum og er orðin fullorðin atvinnugrein með allri þeirri ábyrgð sem því fylgir.

Samfélögin

Mikilvægur þáttur í þróun nýrrar greinar til lengri tíma eru sterk samfélög en það hefur komið fram í viðtölum við fjölda aðila bæði sem starfa í greininni og tengjast henni á annan hátt að samfélögin hafi setið eftir.

Til marks um samtöðuna um fiskeldi er gott að rifja upp þegar starfsleyfi fiskeldisfyrirtækjanna voru tekin úr gildi árið 2018 þá lögðust allir á eitt og sveitafélögin börðust með fyrirtækjunum í því máli þar sem þau litu svo á að hagsmunir þeirra færu saman.

Sveitafélögin hafa verið að upplifa sig útundan undanfarið í umræðunni um fiskeldi en það er sjálfsögð krafa að sveitarfélögin sitji við borðið þegar ákvarðanir eru teknar og geti þannig haft áhrif á þróun mála með fyrirtækjunum og ríkinu.

Samfélagssáttmáli og ályktun fjórðungsþings

Haldnir voru fiskeldisfundir á Patreksfirði og Ísafirði í september sem voru vel sóttir en aðdragandi þeirra var vinna sveitafélaganna sex sem koma að fiskeldi og skrifuðu undir samfélagssáttmála um fiskeldi þann 15. júlí síðastliðinn. Tilgangur sáttmálans er að standa sameiginlega að hagsmunagæslu í fiskeldi og tengdum atvinnugreinum á Vestfjörðum með það að markmiði að efla atvinnulíf og mannlíf með heildarhagsmuni Vestfjarða að leiðarljósi.

Ályktun fjórðungsþings Vestfirðinga um fiskeldi endurspeglar áhyggjur varðandi tekjur sveitafélaganna af fiskeldinu.  

Þar stendur ”Skýra þarf lagaumhverfið og opnbera gjaldtöku í greinni til að tryggja að þær tekjur sem fiskeldi skapar á Vestfjörðum renni til sveitafélaganna þar sem sjókvíaeldi er stundað til að byggja upp grunninnviði sem svara kröfum samfélaganna og atvinnulífsins.”

Í ályktuninni kemur fram að:  Endurskoða þarf fiskeldissjóðinn og tryggja að fiskeldisgjaldið renni beint til innviðauppbyggingar þar sem eldið er stundað. Endurskoða hafna- vöru og aflagjöldin svo gjaldtökuheimildir falli betur að þessari nýju atvinnugrein. Endurskoða umhverfissjóðinn til að tryggja að rannsóknir verði efldar og störfum fjölgað við rannsóknir í nærsamfélögum. Endurskoða tekjur sveitafélaga vegna eldiskvía og umsvifa í sjókvíaeldi á þeirra heimasvæði.

Tryggja uppbyggingu grunninnviða á Vestfjörðum svo svæðið verði samkeppnishæft við aðra landshluta þannig að fyrirtæki og samfélög geti dafnað.

Lokaorð

Það væri mikið gæfuspor ef við fyndum jafnvægispunkt og gætum rætt fiskeldið af yfirvegun og byggðum matið á bestu mögulegu vísindarannsóknum hverju sinni í stað þess að tveir hagsmunahópar á sitthvorum pólnum stýrðu umræðunni.

Það er mikilvægt að við setjum skýrar leikreglur fyrir alla aðila varðandi greiðslur, leifisveitingar, umhverfið og þróun starfa á Vestfjörðum. Það eru miklir hagsmunir í húfi og margir þættir eru jákvæðir og margir þættir sem verður að laga en brýnast af öllu er að vinna að heildar stefnumótun fyrir fiskeldið á Íslandi með hagsmuni allra að leiðarljósi. Hægt er að lesa fyrirlesturinn í heild sinni hér og skoða glærurnar hér.

Guðrún Anna Finbogadóttir

verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu

DEILA