Mokað í Árneshrepp í allan vetur

Snjómokstur við Hrafnabjörg í Reykjarfirði. Mynd: Vegagerðin.

Vegagerðin hefur ákveðið að á tímabilinu janúar til mars á næsta ári verði þjónusta á Strandavegi í Árneshrepp aukin þannig að vegurinn verður mokaður þegar aðstæður leyfa allt að tvisvar í viku. Ekki hefur verið mokað á þessum tíma nema að beiðni sveitarfélags samkvæmt helmingamokstursreglu frá 5. janúar til 20. mars. Um tilraunaverkefni er að ræða til að mæta óskum um aukna þjónustu segir í frétt frá Vegagerðinni.

Strandavegur er um 80 km langur frá Bjarnarfirði í Norðurfjörð. Vegurinn er að hluta til niðurgrafinn og liggur um þekkt snjóflóðasvæði. Lega og ástand vegarins, auk snjóflóðahættu, veldur því að oft á tíðum er ekki er hægt að moka hann eða halda honum opnum að vetri til, sérstaklega þegar snjóþungt er. Takmörkuð fjarskipti eru einnig á þessari leið sem dregur úr öryggi bæði starfsmanna við vetrarþjónustu og almennra vegfarenda.


Ákveðið hefur verið að fara í þetta tilraunaverkefni á tímabilinu janúar 2022 til mars 2022 þar sem vegurinn verður mokaður þegar aðstæður leyfa allt að tvisvar í viku þegar fyrirsjáanlegt er að færðin haldist sæmileg eitthvað áfram. Mat á aðstæðum og ákvörðun til moksturs verður í höndum Vegagerðarinnar í samstarfi við heimamenn og eingöngu mokað þegar hægt er að leggja mat á snjóflóðahættu og veður heimilar. Vegagerðin mun fjármagna tilraunaverkefnið en markmið þess er að leggja mat á raunhæfi þess að halda úti vetrarþjónustu á Strandavegi yfir háveturinn og jafnframt hvað þurfi til svo hægt sé að sinna slíkri þjónustu með öruggum hætti.

Síðast í gær varð að fresta hreppsnefndarfundi vegna ófærðar þar sem Vegagerðinni tókst ekki að opna veginn um Reykjarfjörðinn norðanmegin.

Í apríl síðastliðnum skilaði Stjórn verkefnisins Áfram Árneshreppur af sér skýrslu þar sem voru tillögur til úrbóta fyrir hreppinn.

Efst á blaði í tillögunum var að vetrarþjónusta yrði færð strax úr G-flokki í F-flokk þjónustu Vegagerðarinnar og mokað tvisvar í viku, að teknu tilliti til ofanflóðahættu og öryggis starfsmanna og vegfarenda.

Nú hefur tillagan náð fram að ganga a.m.k. þennan veturinn.

DEILA