Listasafn Ísafjarðar fær þrjú málverk að gjöf

Hörður Högnason færði nýverið Listasafn Ísafjarðar þrjú málverk að gjöf frá afkomendum Þórðar Jóhannssonar úrsmiðs og Kristínar Magnúsdóttur húsmóður sem bjuggu lengstum í Hafnarstræti 4 á Ísafirði. Um er að ræða tvö málverk eftir Jón Hróbjartsson og eitt málverk eftir Gunnar S. Gestsson. Öll verkin eru í góðu ásigkomulagi og mikill fengur fyrir safnið að eignast þau.

Starfsmenn Listasafns Ísafjarðar, þær Kristín Þóra Guðbjartsdóttir og Guðfinna Hreiðarsdóttir, taka við þremur málverkum sem Hörður Högnason afhenti fyrir hönd afkomenda Þórðar Jóhannssonar og Kristínar Magnúsdóttur.

Þórður Jóhannsson var fæddur að Eiðhúsum í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi 16. desember 1888. Foreldrar hans voru Anna Sigurðardóttir og Jóhann Erlendsson bóndi. Þórður ólst upp í Dal í Miklaholtshreppi og síðar í Ólafsvík. Hann kom fyrst til Ísafjarðar aðeins 15 ára að aldri með föður sínum og vann sumarlangt við fiskvinnu í Edinborg. Árið 1904 flutti hann til Ísafjarðar og hóf nám í úrsmíði hjá Skúla Eiríkssyni sem stofnsetti fyrstu úrsmíðavinnustofuna á Ísafirði árið 1881 og rak hana til dauðadags en hann lézt 23. janúar 1907. Að Skúla látnum tóku við rekstri úrsmíðastofunnar Skúli sonur hans og Þórður, sem þá hafði lokið úrsmíðanámi, og ráku þeir hana til ársins 1923 er Þórður stofnaði eigin úrsmíðavinnustofu og verzlun. Þórður tók mikinn þátt í félagslífi og var áhugamaður um söng- og leiklistarmál. Hann söng í áratugi í karlakór og kirkjukór auk þess að eiga um langt skeið sæti í sóknarnefnd. Þá var hann virkur félagsmaður í Góðtemplarareglunni og Oddfellowreglunni. Þórður lést 13. desember 1979

Halldóra Kristín Magnúsdóttir var fædd 22. ágúst 1898 á Ísafirði. Hún var elst níu barna Helgu Tómasdóttur og Magnúsar Ólafssonar prentsmiðjustjóra sem bjuggu í Sólgötu 1 á Ísafirði. Heimili þeirra Helgu og Magnúsar var mikið menningarheimili þar sem leiklist og söngur voru í hávegum höfð enda hjónin virkir þátttakendur í söng og leiklistarlífi á Ísafirði. Kristín tók mikinn þátt í félagslífinu og starfaði m.a. um árabil í góðtemplarareglunni, var félagi í kvenfélaginu Hlíf og söng í kirkjukórnum um 25 ára skeið og Sunnukórnum jafnlengi. Kristín og Þórður giftust árið 1923 og eignuðust sex börn. Þau bjuggu allan sinn búskap á Ísafirði, lengstum áttu þau heima í Hafnarstræti 4 sem þau byggðu á sama tíma og Jónas Tómasson tónskáld og bóksali byggði Hafnarstræti 2 og Kristján og Einar klæðskerar byggðu Hafnarstræti 6. Í Hafnarstræti 4 rak Þórður úra- og skartgripaverslun til dauðadags. Hann andaðist 13. desember 1979 en Kristín lést 26. september 1991.

Þórður og Kristín með börnum sínum sem í aldursröð eru: Högni, Hjördís, Anna, Helga, Ólafur og Magnús.

DEILA