Karfan: Vestri vann Grindavík í kvöld

Karlalið Vestra í Subway deildinni í körfuknattleik vann í kvöld frækinn sigur á toppliði deildarinnar Grindavík 86:71. Var þetta annar sigur Vestra í deildinni og er liðið með 4 stig eftir 7 leiki. Er liðið í 9. sæti deildarinnar af 12.

Vestri byrjaði leikinn vel og hafði 8 stiga forystu eftir fyrsta leikhlutann. Úrslitin réðust í lokaleikhlutanum sem Vestri vann með 12 stiga mun og það sem athyglisvert er að gestirnir skoruðu þá aðeins 8 stig.

Þetta verða að teljast afar óvænt úrslit, sem sýna svo ekki verður um villst að Vestri á fullt erindi í úrvalsdeildina og getur velgt öllum liðum undir uggum.

Nemanja Knezevic var stigahæstur Vestramanna með 21 stig auk þess að taka 14 fráköst. Julio Calver D setti niður 20 stig og Marko Jurica 18 stig.

DEILA