Kalkþörungaverksmiðja í Súðavík: undirbúningur hafinn – vantar tæknimenn

Bíldudalshöfn.

Eftir að undirritaður var samstarfssamningur milli Íslenska kalþörungafélagsins á Bíldudal og Súðavíkurhrepps nú í haust er undirbúningur að starfrækslu verksmiðjunnar hafinn á fullu.

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri býst við að verksmiðjan taki til starfa eftir 2 – 3 ár og segir að þegar þurfi að hefja undirbúning. Ráða þurfi tæknimenn og þjálfa þá til starfa svo þeir verði tilbúnir þegar verksmiðjan tekur til starfa. Best væri að fá menn búsetta á Vestfjörðum sem myndu vinna við verksmiðjuna á Bíldudal næstu 2-3 árin og fara svo til Súðavíkur.

Nýja verksmiðjan mun geta framleitt úr um 120 þúsund tonna af kalkþörungum á ári og við hana munu starfa 20 – 30 manns auk afleiddra starfa. Verksmiðjan verður mjög fullkomin og mun kosta 3,5 – 5 milljarða króna.

Miklar framkvæmdir standa yfir við verksmiðjuna á Bíldudal og segir Halldór Halldórsson að fjárfest hafi verið fyrir 700 milljónir króna. Meðal annars er sett up ný kornunarverksmiðja og viðbótarþurrkari. Afköst verksmiðjunnar aukast við þessar endurbætur og verða nærri 100 þúsund tonn á ári. Starfsmönnum fjölgar um 4 vegna stækkunarinnar og verða 34.

Staðan á framkvæmdum í Súðavík er þannig að Vegagerðin mun bjóða út næstu daga landfyllingu og grjótvörn við Langeyrina. Gert er ráð fyrir að hægt veri að hefja framkvæmdir við verksmiðjuna sjálfa eftir 2 ár.

DEILA