Ísafjörður: nýr vélsleði fyrir 2,2 m.kr.

Frá skíðasvæði Ísfirðinga.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að kaupa nýjan vélsleða fyrir skíðasvæði Ísafjarðar sem mun kosta 2,2 m.kr. Til er heimild til þess að verja 6 m.kr. í ófyrirséðar framkvæmdir í framkvæmda/fjárfestingaráætlun 2021 og verður kaupverðið dregið af þeirri fjárhæð.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs segir að á skíðasvæðum Ísafjarðarbæjar séu til umráða tveir vélsleðar, annars vegar Artic Cat Bearcat árgerð 2013, ekinn 7000 km. og hinsvegar Lynx árg. 2019, ekinn 4000 km. sá fyrrnefndi er kominn til ára sinna og komið að stóru viðhaldi, vegna ónýts gírs.
Til að geta tryggt rekstraröryggi og geta fylgt eftir viðbragðsáætlunum sem og sjúkraflutningum á svæðinu, er lágmark að tveir vélsleðar séu í nothæfu ástandi á skíðasvæðunum, annars vegar í Tungudal og hins vegar á Seljalandsdal.

Fyrir liggur tilboð frá Arctic Trucks í nýjan vélsleða af gerðinni Yamaha Viking 540. Sá sleði er áræðanlegur og þekktur sem öflugt vinnutæki með háum og lágum gír segir í minnisblaðinu. „Sá vélsleði myndi henta starfsemi skíðasvæðisins mjög vel. Tilboðsverð á slíkum vélsleða er 2.190.000 kr. sem verður að teljast mjög hagstætt.“

Einnig bárust tilboð í tvo sleða frá Ellingsen en þau voru hærri. Lynx Adventure LX 600ACE, verð: 2.973.440 með
aukabúnaði og Lynx Commander STD 900ACE, verð: 3.773.440 með aukabúnaði.

DEILA