Ísafjörður: hestamenn ganga eftir efndum

reiðskemman í Engidal. Mynd: Bæjarins besta.

Hestamannafélagið Hending sendi í síðasta mánuði bréf til bæjarstjórnar þar sem minnt var á að samningur milli félagsins og bæjarins frá 2018 hefði ekki verið undirritaður og að ekki hefði verið ráðist í umsamdar framkvæmdir. Er farið fram á að samingurinn verði undirritaður og að bæjarstjórnin komi með nýja áætlun um að ljúka framkvæmdunum á árinu 2024 eins og að var stefnt.

Í óundirritaða samningnum var framkvæmdum að fjárhæð 61 m.kr. á verðlagi 2018 raðað á einstök ár fram til 2024. Fram kemur í erindi Hendingar að samningurinn hafi að hluta til verið bætur vegna mannvirkja á Búðatúni í Hnífsdal. Byggja á nýja völl í Engidal samkvæmt fyrrgreindum rammasamningi frá 2018. Hestamannafélagið hefur reist í Engidal myndarlega reiðhöll.

Völlurinn á að vera 250 m hringvöllur og 400 m kappreiðarvöllur með dómshúsum, lýsingum og lögnum, áhorfendaaðstöðu , girðinga og gróðurs og bílastæða. Hending mun vinna verkið samkvæmt áætlun samningsins.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Svonefndur uppbyggingarsamningur, sem mun hafa varðað reiðhöllina, við Hestamannafélagið var lagður fyrir bæjarstjórn í maí 2018, skömmu fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar. Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar lagði til að samningurinn yrði samþykktur. Fram kemur í frétt um málið á Bæjarins besta í nóvember 2018 að þáverandi forseti bæjarstjórnar, Nanný Arna Guðmundsdóttir, hafi lagt fram breytingartillögu að ósk minnihluta bæjarstjórnarinnar: „Bæjarstjórn lýsir yfir vilja til að gerður verði uppbyggingarsamningur við Hestamannafélagið Hendingu vegna ársins 2018 með 3ja milljóna króna framlagi Ísafjarðarbæjar, í samræmi við framlagða tillögu, og að hann verði lagður fyrir bæjarráð ásamt nauðsynlegum viðauka við fjárhagsáætlun.“ Breytingartillagan var samþykkt 5-0 en fjórir sátu hjá. Málum lauk samt þannig að áframhaldandi viðræðum um uppbyggingarsamninginn var frestað fram yfir kosningar.

DEILA