Ísafjarðarbær: vatnsgjald lækkar um 80% á íbúðarhúsnæði

Útsvar næsta árs verður óbreytt frá yfirstandandi ári eða 14,52%. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ákvað gjaldskrár og skatt á fundi sínum á fimmtudaginn.

fasteignaskattur verður einnig óbreyttur 0,56% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og 1,65% af mati af öðrum fasteignum. Lóðarleiga af íbúðarhúsnæði lækkar úr 1,80% í 1,5% en verður óbreytt 3,0% af öðrum fasteigum.

Breytingar verða á vatnsgjaldi og holræsagjaldi. Mesta breytingin verður á vatnsgjaldi af íbúðarhúsnæði sem lækkar um 80%. Það er nú 0,10% af fasteignamati en verður á næsta ári 0,02%. Vatnsgjaldið verður óbreytt 0,30% af öðrum fasteignum. Holræsagjald af íbúðarhúsnæði lækkar um fjórðung úr 0,2% í 0,15% en verður óbreytt 0,30% af öðrum fasteignum.

Ekki eru veittar upplýsingar um áhrif af gjaldskrárbreytingunum á tekjur bæjarins í afgreiðslu bæjarstjórnar né hvers vegna breytingin er gerð.

Í maí síðastliðunum sendi Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra bréf til allra sveitarfélaga með tilmælum um að þau yfirfari gjaldskrá vatnsveitu sveitarfélagsins með hliðsjón af leiðbeiningum ráðuneytisins um ákvörðun vatnsgjalds.  Þar er skýrt hvað felst í því að vatnsgjald er þjónustugjald en ekki skattur og að skýrt þurfi að liggja fyrir hvaða kostnaðarliði vatnsgjaldið megi að standa undir og ekki hvað síst að gjaldið megi ekki vera tekjulind umfram það.

Árið 2019 var Vatnsveita Ísafjarðar með 106 m.kr. í tekjur 2019 og hagnaður af rekstrinum varð 53 m.kr. eða helmingur teknanna. 

DEILA