Ísafjarðarbær: lækkar gatnagerðargjöld á Þingeyri

Þingeyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar er samþykkt því að lækka gatnagerðargjöld um 2 m.kr. vegna fyrirhugaðrar byggingar á lóðinni Hafnarstræti 21 á þingeyri, en áætluð gjöld eru 6,9 m.kr. Stofn til álagningar er fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð.

Það er fyrirtækið Sæverk ehf sem sækir um lækkunina. Í umsókninni er visað til heimildar í lögum um gatnagerðargjöld sem segir „að sveitarstjórn er heimilt að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu
við sérstakar aðstæður, svo sem vegna þéttingar byggðar, atvinnuuppbyggingar, lítillar ásóknar í viðkomandi lóð eða eftirspurnar eftir leiguhúsnæði.“

Bendir umsækjandi á að „Þingeyri er á köldu svæði og að ekki hafi verið byggt þar atvinnuhúsnæði í einhverja áratugi, ásamt því að í dag er verulegur skortur á húsnæði á Þingeyri, undir hverslags atvinnustarfsemi. Einnig má benda á að Þingeyri er í verkefninu Brothættar byggðir, en í því verkefni er m.a. lögð mikil áhersla á atvinnuuppbyggingu.“

Vonast umsækjandi til þess að með því að reisa fjölnota atvinnuhúsnæði geti það haft veruleg ruðningsáhrif til eflingar atvinnu á svæðinu.

Málið fer nú til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

DEILA