Hrútaskrá vetrarins 2021-22 er komin á vefinn

Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna veturinn 2021-2022 er komin á vefinn en prentaða útgáfan er væntanleg í þessari viku.

Að þessu sinni standa 48 úrvalshrútar til boða í komandi sæðingavertíð en útsending sæðis mun hefjast þann 1. desember nk. og standa til 21. desember nk.

Af þessum 48 hrútum eru þrjátíu hyrndir og þar af einn ferhyndur, fjórtán kollóttir, tveir feldfjárhrútar og loks tveir forystuhrútar. Í hópi þessara hrúta er að finna nítján hrúta sem eru að hefja sinn fyrsta vetur á stöð. Hér ættu því allir sauðfjárræktendur að geta fundið hrút til notkunar sem fellur að þeirra áhuga og kröfum.

Margir hafa komið að gerð hrútaskráarinnar. Lýsingar og umsagnir hrúta hafa skrifað þeir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, Eyþór Einarsson, Lárus G. Birgisson og Árni Brynjar Bragason. Vinnsla gagna hefur að langmestu leyti verið í höndum Eyjólfs Ingva. Sigurður Kristjánsson sá um prófarkalestur ásamt höfundum lýsinga og Rósa Björk Jónsdóttir um umbrot.

Myndir í skránni eru eftir Höllu Eyglóu Sveinsdóttur og Anton Torfa Bergsson. Greinar í skránni eru eftir þau Eyþór Einarsson, Karólínu Elísabetardóttur og Stefaníu Þorgeirsdóttur. Þorsteinn Ólafsson samdi texta um sauðfjársæðingar og beiðsli. Ritstjóri er Guðmundur Jóhannesson.

DEILA