Hátíð fer í hönd á Vestfjörðum

Aðventan fer nú í hönd með allt sitt jólatilstand. Mannfólkið finnur leiðir til að leita ljóssins í myrkrinu sem umlykur okkur upp við 66 gráðurnar. Það hitar sér kakó, hittir þá sem eru þeim kærir, og yfir og allt um kring ómar jólatónlistin.

Einvalalið vestfirsks tónlistarfólks hefur nú tekið höndum saman og mun það bjóða upp á jólatónleika á Hólmavík, Tálknafirði og Ísafirði dagana 10.-12. desember. Hópurinn hefur nokkrum sinnum áður sungið jólin í hjörtu Vestfirðinga við góðar undirtektir. Hann samanstendur af Dagnýju Hermannsdóttur, Jóni Hallfreð Engilbertssyni, Pétri Erni Svavarssyni, Stefáni Jónssyni og Svanhildi Garðarsdóttur. Auk þeirra mun sópransöngkonan Sigrún Pálmadóttir koma fram með hópnum á Ísafirði.

Á dagskrá verða jólaperlur sem allir kannast við, auk nokkurra laga úr smiðju hópsins. Til að gefa smá innsýn í stemninguna munu eftirfarandi lög óma: Jólin alls staðar, Er líða fer að jólum, Hátíð í bæ, Amma engill, Nú minnir svo ótal margt á jólin og Hugurinn fer hærra.

Tónleikarnir fara fram sem hér segir:

Hólmavíkurkirkja 10. desember kl. 20

Tálknafjarðarkirkja 11. desember kl. 17

Ísafjarðarkirkja 12. desember kl. 17

Full meðvitund er um yfirstandandi heimsfaraldur og þær takmarkanir sem hann setur. Því verða heilbrigðisstarfsmenn frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða með í för til Hólmavíkur og Tálknafjarðar og verður boðið upp á hraðpróf sem hér segir:

Á Hólmavík verða prófin tekin á heilsugæslustöðinni á milli kl. 16 og 18. Á Tálknafirði verða hraðprófin í heilsugæsluselinu á milli kl. 14-16. Ekki þarf að bóka í hraðpróf – bara mæta. Nánari útfærsla á hraðprófunum á Ísafirði verða birt á Fésbókarsíðu Hátíð fer í hönd: https://www.facebook.com/hatidferihond

Miðaverð á tónleikana er 4.900 krónur og  2.500 fyrir börn að 16 ára aldri. Miðasala fer fram á tix.is https://tix.is/is/search/?k=h%C3%A1t%C3%AD%C3%B0%20fer%20%C3%AD%20h%C3%B6nd

Mikil spenna er meðal tónlistarfólksins að fá að flytja lifandi jólatónlist fyrir gesti í þessum fallegu kirkjum.

DEILA