Er Ísafjarðarbær ófjölskylduvænasta bæjarfélagið?

Er Ísafjarðarbær orðinn ófjölskylduvænasta bæjarfélag á Íslandi eða hefur það kannski bara alltaf verið það og aldrei verið neinn metnaður í að gera betur?

Til að byrja með sýndi könnun sem var gerð á leikskólagjöldum leikskóla á landinu árið 2021 að Ísafjarðarbær var með hæstu gjöldin á landinu fyrir fjölskyldur með tvö börn á leikskóla og minnsta afsláttin, þá er verið að tala um systkinaafslátt, afslátt fyrir tekjulágar fjölskyldur og þegar einn foreldri er í námi. Nú fer að nálgast árið 2022 og engar breytingar hafa verið gerðar nema einstæðir foreldrar fá afslátt og ef báðir foreldrar séu í námi.

Lítill metnaður er hjá Ísafjarðarbæ að hafa starfandi talmeinafræðing fyrir börnin okkar eða fá talmeinafræðing annarsstaðar frá, en þeir sem vinna hjá bænum eru ekki mikið að drífa sig í að minnka biðlista barna sem þurfa á talmeinafræðingi að halda. Hefur það margoft verið sýnt og sannað að þegar börn eigi í vandræðum með tal eða framburð skiptir öllu máli að þau fái aðstoð strax. Í dag er biðlistinn ennþá of langur og barn fær tíma einu sinni í mánuði, 1 klst í senn (ef það er flogið!).

Þá förum við til Grunnskólans á Ísafirði, en þar borga foreldrar mat fyrir börnin sín í mötuneytinu, en margir skólar hafa lagt matargjöldin niður til að gera samfélagið fjölskylduvænna. Ísafjarðarbær leggst meiri að segja svo langt að rukka fyrir ferska ávexti í millimál fyrir grunnskólabörnin og eru margar tekjulágar fjölskyldur sem hafa ekki efni á að borga fyrir ávaxtastund barna sinna á skólatíma.

Grunnskólabyggingin er svo annar pistill út af fyrir sig en Ísafjarðarbær hefur í gegnum árin verið að skerða pening til grunnskólans svo lítið er hægt að laga eða gera betur fyrir börnin okkar.

Nú fer að styttast í kosningar og legg ég til að eitthvað verði gert fyrir barnafjölskyldur á Ísafirði nema markmiðið sé jú auðvitað að vera ófjölskylduvænasta bæjarfélagið, því við erum á mjög góðri leið þangað.

Kristbjörg Tinna Sigurðardóttir

DEILA