Dýrafjarðargöng : 13,4 milljarðar króna með vegum

Dýrafjarðargöng. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Kostnaður við Dýrafjarðargöng var áætlaður þann 5.7. 2021 alls 11.700 milljónir króna. Vinna verktaka er verðbætt en annað er á verðlagi þess tíma sem kostnaðurinn varð til. Lokauppgjöri er ólokið. Þetta kemur fram í svörum Vegagerðarinnar við fyrirspurn Samgöngufélagsins sem er dagsett 4. október sl. Kostnaðaráætlun frá janúar 2017 var upp á 12,3 milljarða króna þannig að kostnaðurinn er heldur undir því.

Að auki er kostnaður við vegi í Borgarfirði og Dýrafirði 1.700 milljónir króna. Samanlagður kostaður við göngin og vegi er samkvæmt þessu 13,4 milljarðar króna.

Útvarp í göngin

Vegagerðin hefur ákveðið að láta setja í Dýrafjarðargöngin búnað fyrir útvarp ásamt tilheyrandi öryggisbúnaði. Samskiptakerfi fyrir jarðgöng (FM og Tetra) var boðinn út sérstaklega og kostnaður við samning vegna Dýrafjarðarganga var 36 m.kr.

Samgöngufélagið innti sérstaklega eftir því hvers vegna þessi búnaður hafi verið settur upp þar sem reglugerð um öryggisbúnað gerir ekki ráð fyrir slíkum búnaði í fáförnum göngum. Í svörum Vegagerðarinnar segir að það sé vegna þess að útvarpssamband falli undir viðurkenndan öryggisbúnað og því hafi verið ákveðið að stefna á útvarpssamband í öllum jarðgöngum. Fjármagn til uppsetningar í eldri göngum verður fengið úr viðhaldsfé Vegagerðarinnar.

DEILA