Byggðamál: hlutverk Akureyrar skilgreint

Í stjórnarsáttmálanum nýja er sérkafli um byggðamál. Þar er nýmæli að mælt er fyrir um að mótuð verði stefna þar sem svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni er skilgreint og stuðlar að uppbyggingu sem geti boðið upp á fjölbreytileika í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.

Af öðrum áhersluatriðum má nefna að störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin, horft verði til þess að veita afslátt af námslánum vegna starfa á landsbyggðinni og áfram byggja upp háhraðanet.

Haldið verður áfram að styðja við nýsköpun, m.a. með regluverki og umhverfi sem styður við stofnun og rekstur fyrirtækja, ekki síst í fámennari byggðum. Samhliða verður unnið að eflingu sóknaráætlana landshlutanna.

Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.

Sett verður markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni

Stutt verður við starfsaðstöðu og klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila á landsbyggðinni.

Stutt verður við orkuskipti á landsvísu með áherslu á að horfa til orkutengdra verkefna og grænnar orkuframleiðslu. Byggðaáætlun styðji við græn umskipti um allt land.

Beita þarf hagrænum hvötum í byggðaþróun, m.a. í gegnum Menntasjóð námsmanna.

Stutt verður við þekkingarmiðstöðvar, rannsóknarsetur á landsbyggðinni, náttúrustofur og fjarheilbrigðisþjónustu í smærri byggðalögum.

Framlög verða áfram tryggð til jöfnunar húshitunar- og raforkukostnaðar heimila milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Tryggð verður geta og fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar háhraðaneta þar sem markaðsaðilar sinna ekki þeirri þjónustu eða öryggissjónarmið krefjast þess.

DEILA