Bolungavík: skipuleggja nýtt íbúðahverfi

Horft yfir Hreggnasagryfjuna. Mynd: aðsend.

Bæjarráð Bolungavíkurkaupstaðar hefur ákveðið að hefjast handa við skipulagningu á nýju íbúðahverfi í Bolungavík og verður gert ráð fyrir því í næstu fjárhagsáætlun.

Um er að ræða svæði framan við Hreggnasa yfir gamla íþróttavöllinn sem þar var og að skógræktinni sem Skógræktarfélag Bolungavíkur hefur ræktað upp af myndarskap á undanförnum áratugum. Nær svæðið svo niður að Hólsánni að innanverðu.

Þarna er hægt að skipuleggja byggð fyrir nokkur hundruð manns.

Jón Pall Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að næsta skref væri að hefja deiliskipulagningu svæðisins. Hann kvaðst vonast til þess að skipulagið liggi fyrir næsta sumar og að hægt yrði að auglýsa lóðir til umsóknar seinni part næsta árs.

Miðbæjarskipulag

Annað skipulagsverkefni er í deiglunni en það er nýtt miðbæjarskipulag á svæðinu milli Hafnargötu og Aðalstrætis frá Íshúsinu og að Einarshúsi. Markmið þess væri að færa þjónustustarfsemi nær höfninni. Unnið verður samhliða að þessum tveimur skipulagsverkefnum.

DEILA