Alþingi: minningarorð um látna alþingismenn

Starfsaldursforseti Alþingis Þorgerður K. Gunnarsdóttir, flutti minningarorð um Þórunni Egilsdóttur og Jón Sigurðsson við setningu Alþingis 23. nóvember 2021.

Þórunn Egilsdóttir

Þær sorgarfréttir bárust hingað 10. júlí á liðnu sumri að Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknarflokksins, einn af varaforsetum Alþingis, hefði andast kvöldið áður, 9. júlí, á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sú fregn var óvænt þótt við alþingismenn og margir aðrir hefðum fylgst með hetjulegri baráttu hennar síðan snemma árs 2018 við krabbamein sem lagði hana að velli langt fyrir aldur fram. Þórunn var í veikindaleyfi frá þingstörfum að mestu frá 2019 en undir lok þinghalds síðastliðið vor kom hún í þinghúsið og heilsaði upp á þingmenn og starfsmenn, en erindi hennar í höfuðstaðinn var að flytja ávarp fyrir hönd þingkvenna á ársfundi samtaka kvenleiðtoga.

Það er ein af þessum ótrúlegu tilviljunum lífsins að setning Alþingis ber nú upp á afmælisdag Þórunnar Egilsdóttur, en hún fæddist í Reykjavík 23. nóvember 1964 og hefði því orðið 57 ára í dag.

Foreldrar Þórunnar eru Egill Ásgrímsson bólstrari og Sigríður Lúthersdóttir húsmóðir. Þórunn lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1984 og B.Ed.-prófi frá Kennaraháskólanum 1999. Þegar eftir stúdentspróf fluttist Þórunn austur á Vopnafjörð, kynntist þar manni sínum og stóð með honum fyrir sauðfjárbúi á Hauksstöðum í Vesturárdal frá 1986. Hún var leiðbeinandi við grunnskóla sveitarinnar og kennari þar 1999–2008, skólastjórnandi síðustu árin. Þá varð hún verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Austurlands fram til þess að hún var kjörin á Alþingi. Samhliða föstu starfi og búskap varð Þórunn fljótlega forystukona í samtökum kvenna í héraði og í félagsmálum í Vopnafirði, sat í sveitarstjórn 2010–2014 og var oddviti 2010–2013, en áður hafði hún setið í félagsmálanefnd Vopnafjarðarhrepps. Þórunn var í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, í sveitarstjórnarráði síns flokks og í miðstjórn hans frá 2010. Enn fremur var hún kvödd til margvíslegra stjórnarstarfa í samtökum íslenskra sveitarfélaga, í landbúnaðarmálum og samgöngumálum.

Þórunn var kjörin alþingismaður Norðausturkjördæmis 2013 og endurkjörin 2016 og 2017. Á Alþingi vakti Þórunn þegar athygli fyrir prúðmannlega framkomu og sanngjarnan málflutning. Hún var þó föst fyrir í störfum fyrir flokk sinn og hafði skýra sýn á hvað skipti máli og hvað ekki.

Af sjálfu leiddi að Þórunn var kjörin til ábyrgðarstarfa innan Alþingis, hún var varaforseti nær samfellt frá 2015. Frá kjördegi í lok október 2016 og fram að þingsetningu í byrjun desember var hún starfandi forseti Alþingis. Hún var formaður þingflokks Framsóknarmanna 2015 og á ný frá 2016 meðan heilsa leyfði. Hún gegndi nefndastörfum á mörgum málefnasviðum og var hvarvetna góður liðsmaður. Á fyrsta kjörtímabili sínu, 2013–2016, var Þórunn formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins og var varaformaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins frá 2017. Hún sat á níu löggjafarþingum.

Þórunn Egilsdóttur var um margt sérstæð og eftirminnileg kona, bar með sér reisn í framkomu, hæglát í fasi, orðvör og orðheppin. Öllum þótti gott að vinna með Þórunni sem var traust og yfirveguð á hverju sem gekk. Hún var einstaklega dugleg, ósérhlífin og skyldurækin við öll störf sín á Alþingi.

Fráfall alþingismanns sætir tíðindum en það snertir okkur þó dýpra en ella sem þekktum margþætta mannkosti Þórunnar, baráttuþrek, hugrekki og bjartsýni hennar. Alþingi saknar vinar í stað.

Jón Sigurðsson

Hinn 10. september sl. lést á líknardeild Landspítalans Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, eftir löng veikindi.

Jón Sigurðsson var fæddur í Kollafirði á Kjalarnesi 23. ágúst 1946. Foreldrar hans voru Unnur Kolbeinsdóttir kennari og Sigurður E. Ólason hæstaréttarlögmaður. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1966, B.A.-prófi í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1969 og doktorsprófi í menntunarfræðum og MBA-prófi frá bandarískum háskólum.

Starfsferill Jóns Sigurðssonar var óvenju fjölbreytilegur. Hann var lektor í íslensku við háskóla í Svíþjóð, skrifstofustjóri Máls og menningar, forstjóri Menningarsjóðs, ritstjóri Tímans, skólastjóri Samvinnuskólans og síðar rektor Samvinnuháskólans, framkvæmdastjóri Vinnumálasambands samvinnufélaganna, seðlabankastjóri, kennari við Háskólann í Reykjavík og er þó ekki allt talið. Jafnframt var Jón formaður, stjórnarmaður eða ráðgjafi margra félaga, samtaka og stofnana á sviði fjármála og viðskipta, heilbrigðismála og menntamála. Eftir Jón liggja fjölmargar bækur, ritgerðir og greinar í blöðum og tímaritum.

Þegar Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins hvarf af vettvangi stjórnmála 2006 var Jón Sigurðsson kvaddur til starfa í ríkisstjórn og var síðar kosinn formaður Framsóknarflokksins. Hann fór með iðnaðar- og viðskiptamál og varð jafnframt annar tveggja forustumanna ríkisstjórnarinnar. Við alþingiskosningarnar 2007 náði Jón ekki kjöri og fór þá til nýrra starfa á öðrum vettvangi. Hann sat því aðeins eitt þing eftir embættisstöðu sinni sem ráðherra.

Jón Sigurðsson var fjölmenntaður og margfróður maður og bjó yfir mikilli reynslu er hann kom til starfa á Alþingi, góður og sanngjarn í samskiptum við aðra í stjórnmálum, hreinn og beinn, velviljaður og jafnan glaður í bragði. Hann var snjall ræðumaður og vel máli farinn. Svo fór að Alþingi naut krafta Jóns aðeins skamman tíma en hvar sem hann fór munaði um hann í íslensku viðskipta- og menningarlífi.

Ég bið þingheim að minnast Þórunnar Egilsdóttur alþingismanns og Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráðherra, með því að rísa úr sætum.

DEILA