Vesturverk: unnið að undirbúningi Hvalárvirkjunar

Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður Vesturverks ehf segir að áfram verði unnið að undirbúningi að virkjun Hvalár.

„Nýlokið er við ferð á Ófeigsfjarðarheiði vegna rannsókna. Ljóst er að vinna að skipulagsmálum og öðrum undirbúningi fyrir tengilögn virkjunarinnar mun standa yfir næstu tvö ár en samhliða því verður áfram unnið að rannsóknum, hagkvæmnimati o.fl.“

Meirihlutaeigandi í Vesturverki ehf er HS Orka. Athygli vakti að í viðamiklu viðtali við Morgunblaðið 6. október skýrði Tómas Már Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins framtíðaráform þess um tugmilljarða króna uppbyggingu í Auðlindagarði HS Orku á Suðurnesjum á næstu árum sem mun leiða af sér að um 1500 manna fjölgun starfsmanna innan 10 – 15 ára vegna stækkunar virkjana fyrirtækisins og nýrra virkjana sem yrðu reistar. Fram kemur í máli Tómasar að aukinnar raforkuframleiðslu væri þörf vegna ýmissa áforma í atvinnuuppbyggingu á svæðinu, svo sem stóraukið landeldi Samherja, framleiðslu á metanóli, matvælaframleiðslu í Krýsuvík og ýmiss konar iðnaðaruppbyggingu.

Forstjóri HS Orku minntist hins vegar ekkert á Hvalárvirkjun og uppbyggingu á Vestfjörðum í viðtalinu.

Bæjarins besta innti því Ásbjörn Blöndal stjórnarformann Vesturverks ehf og framkvæmdastjóra þróunarsviðs HS Orku eftir því hver áform HS Orku væru varðandi raforkuframleiðslu á Vestfjörðum.

Ásbjörn svaraði því til að Hvalárvirkjun væri í öðru félagi en ekki í HS Orku og því hefði ekki verið minnst á Hvalárvirkjun í viðtalinu en að áfram væri unnið að undirbúningi að virkjun Hvalár eins og áður segir.

DEILA