Uppskrift vikunnar: beikonvafin kjúklingalæri

Þessi uppskrift er mjög góð og ekki skemmir að hún er frekar ódýr líka.

Svo er bara um að gera að nota hugmyndaflugið í fyllinguna, ég hef prófað ýmsar tegundir af osti, sleppt hnetum, sett spínat og já eiginlega, hvað sem mér hefur dottið í hug. Um að gera að prófa sig áfram og finna hvað hverjum og einum finnst best.

6-8 beikonsneiðar
1 bátur gráðostur
1 dl kasjúhnetur
Salt og nýmalaður pipar
3 msk. olía

Kryddið lærin með salti og pipar. Setjið u.þ.b. 1 msk. af osti inn í hvert læri ásamt nokkrum kasjúhnetum. Vefjið beikonsneið utan um hvert læri og steikið í olíu á vel heitri pönnu í 3-4 mínútur eða þar til beikonið er orðið fallega brúnað allan hringinn. Færið þá pönnuna í 180°C heitan ofn í 15 mínútur eða þar til kjarnhiti sýnir 70°C.

Rauðlaukssulta

2 msk. olía
3 rauðlaukar, skornir í báta
3-4 msk. sykur
3 lárviðarlauf
1 tsk. timían
1 dl balsamedik
Salt og nýmalaður pipar

Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn í 2 mínútur. Bætið þá sykri á pönnuna og steikið í 1 mínútu.

Þá er timíani, lárviðarlaufum og balsamediki bætt á pönnuna og látið sjóða þar til vökvinn er orðinn að sírópi. Smakkið til með salti og pipar. Berið lærin fram með rauðlaukssultunni og bökuðum kartöflum og salati.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir

DEILA