Strandsvæðaskipulag: Skipulagsstofnun vill taka upp nýtingarflokka

Jökulfirðir. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á fundi svæðisráðs um gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum þann 22. september sl. var greint frá því að Skipulagsstofnun muni leggja til við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að nýtingarflokkar fyrir strandsvæðisskipulag verði settir inn í reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags nr. 330/2020. Skipulagsstofnun vinnur að drögum að
reglugerðarbreytingu til ráðuneytisins.

Í kjölfar þessarar kynningar fór fram innan svæðisráðsins umræða um skilgreiningar nýtingarflokka í samanburði
við landnotkunarflokka skipulags á landi, um möguleika á breytingum á strandsvæðisskipulagi og um hlutverk svæðisráðs í því sambandi.

Fulltrúi Skipulagsstofnunar fór yfir almenn viðmið sem lögð eru til grundvallar þegar svæði er ráðstafað í tiltekinn
nýtingarflokk. Í framhaldinu voru kynnt frumdrög að nýtingu strandsvæða á Vestfjörðum og hver einstakur hluti skipulagssvæðisins tekinn til umræðu út frá mismunandi nýtingarmöguleikum.

Viðmiðin og frumdrögin hafa ekki verið birt. En fram kemur í fundargerð að rætt hafi verið um umferð skipa og fiskeldi í þessu samhengi.

Á næsta fundi svæðisráðsins 4. októer var áfram rætt um þessi áform um nýtingarflokka og tekinn fyrir nyrsti hluti skipulagssvæðisins frá Arnarnesi að Straumnesi.

Á þessu svæði eru Jökulfirðirnir og því vaknar spurningin hvort Skipulagsstofnun sé í samráði við Umhverfisráðuneytið að undirbúa ákvörðun sem yrði tekin í svæðisráði um bann við fiskeldi í Jökulfjörðum.

Tillaga svæðisráðs um nytingu svæðisins sem strandsvæðaskipulagið nær til fer til Umhverfisráðherra sem staðfestir hana. Sveitarstjórnir greiða ekki atkvæði um tillögu svæðisráðs.

DEILA