Strandabyggð stefnt fyrir dómstóla

Strandabyggð hefur borist stefna frá fyrrverandi sveitarstjóra, Þorgeiri Pálssyni. Í henni er farið fram á biðlaun í þrjá mánuði að frádregnum tekjum og miskabætur vegna uppsagnar í apríl síðastliðnum.

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar síðasta þriðjudag.

Sveitarstjórn sagði Þorgeiri upp störfum í apríl síðastliðnum og var honum gert að hætta strax. Samkvæmt samningi var þriggja mánaða uppsagnarfrestur en Þorgeir telur sig eiga að auki þriggja mánaða biðlaun.


Sveitarstjórnin hafnar kröfunni og bókaði eftirfarandi:
„Sveitarstjórn vill koma því á framfæri að gengið hefur verið frá starfslokum fyrrverandi sveitarstjóra í fullu samræmi við ráðningarsamning og í takt við ráðleggingar lögfræðinga. Sveitarstjórn telur að kröfurnar eigi ekki rétt á sér og felur því oddvita og lögmönnum sveitarfélagsins að taka til varna í málinu og verja hagsmuni sveitarfélagsins.“

DEILA