Snerpa lagði bæinn

Snerpa á Ísafirði

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi synjun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar á erindi Snerpu Ísafirði um um stöðuleyfi fyrir 20 feta geymslugám bak við bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði.

Segir í úrskurðinum að að telja verður að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið svo áfátt að fallast verður á kröfu Snerpu um ógildingu hennar.

Kærandi sótti í júlí 2020 um stöðuleyfi fyrir 20 feta geymslugám bak við bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði. Í umsókninni kom fram að gámurinn væri kominn á staðinn og hefði staðið þar skemur en í tvo mánuði. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 26. ágúst 2020 var umsókninni synjað og kæranda gert að fjarlægja gáminn fyrir 30. september s.á. Með bréfi, dags. 25. september s.á., óskaði kærandi eftir því að málið yrði tekið upp að nýju. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 28. október s.á. og bókað að nefndin stæði við fyrri ákvörðun.

Kærandi kærði afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar 5. nóvember 2020. Var kærunni vísað frá úrskurðar­nefndinni þar sem umsókn kæranda hefði ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu og því lægi ekki fyrir ákvörðun sem hefði bundið enda á málið.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. maí 2021 var umsókn kæranda um stöðuleyfi hafnað á þeim forsendum að á svæðinu, sem sé svæði fyrir íbúðabyggð, ríki hverfisvernd, sbr. aðal­skipulag Ísafjarðar, og ekki sé gert ráð fyrir gámum á svæðinu.

Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi haldi því ranglega fram að Mjallargata 5 sé á íbúðarsvæði enda sé um að ræða blandaða byggð. Rétt sé að öll Eyrin á Ísafirði sé undir hverfisvernd en að ákvæði í hverfisvernd taki að vitund kæranda á engan hátt til stöðuleyfa fyrir geymslugáma. Lóðir á sama götureit og Mjallargata 5 séu allar nema ein með húsnæði sem sé skráð sem atvinnuhúsnæði. 

Af hálfu Ísafjarðarbæjar var því haldið fram að svæðið sé innan hverfisverndarsvæðis H8. Gámur séu skilgreindur í byggingarreglugerð 112/2012 sem staðlaður geymir fyrir vöruflutninga á sjó og landi og eigi hann því ekkert erindi á slíkt svæði sem hér um ræði.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir að þar sem stöðuleyfi sé tímabundið hafi það almennt ekki áhrif á tilgang og markmið hverfisverndar sem er að vernda svæði fyrir óæskilegum breytingum. Ekki komi heldur fram í hinni kærðu ákvörðun með hvaða hætti veiting stöðuleyfis á svæðinu gangi gegn tilgangi hverfisverndar. „Þá verður að telja að sá rökstuðningur byggingarfulltrúa að ekki sé heimilt að veita umrætt stöðuleyfi þar sem ekki sé gert ráð fyrir gámum á svæðinu sé ekki viðhlítandi fyrir synjun á stöðuleyfi.“

DEILA