Ögurstund í lífskjörum

Núna er tímapunkturinn þar sem afdrifaríkustu ákvarðanirnar eru teknar í kjölfar Covid-kreppunnar. Við sáum það í nýafstaðinni kosningabaráttu að sumir frambjóðendur lögðu áherslu á „að loka gatinu“, þ.e. að greiða hratt upp skuldir ríkisins. Aðrir vildu sýna þrautseigju og setja í forgang að vernda sameiginlegar eignir og velferðarkerfið. ASÍ varaði við því strax í upphafi fársins að þessi staða myndi koma upp og við þyrftum að sammælast um að vaxa út úr kreppunni í stað þess að auka álögur eða selja ríkiseigur. Sú áhersla sem verkalýðshreyfingin lagði á að vernda kaupmátt almennings í gegnum kreppuna hefur enda skilað sér með þeim hætti að samdrátturinn beit almenning minna en ella. Sú staðreynd varð svo aftur til þess að halda atvinnulífinu gangandi. 

Nú eru blikur á lofti: Hrávöruverð í heiminum fer hækkandi og dregið hefur úr framleiðslu ýmissa vara vegna sóttvarnaraðgerða. Við erum því stödd á ögurstundu. Vöruverð, verðbólga og vaxtahækkanir geta haft afdrifaríkar afleiðingar á kjör almennings og gert það að verkum að launahækkanir framundan haldi ekki í við kaupmátt. Við það verður ekki unað og spjótin standa nú á stjórnvöldum að draga úr áhrifum á almenning. Í fyrsta lagi þá er óljóst hvaða áhrif vaxtahækkanir hafa í þessu árferði og eðlilega er uppi krafa um að halda vöxtum lágum. Í öðru lagi þá þurfa stjórnvöld að draga úr álögum á innfluttum nauðsynjavörum til að stemma stigu við verðbólgu og dýrtíð. Í þriðja lagi þá er það svo að þær hrávörur sem framleiddar eru hér á landi, fiskurinn og álið, hækka líka í verði. Við erum því enn og aftur í þeirri stöðu að krefjast þess að verðmætin sem skapast í framleiðslunni verði til hagsbóta fyrir samfélagið allt í gegnum sanngjarna skatta og auðlindagjöld.

Um þetta hljóta stjórnarmyndunarviðræðurnar að fjalla um þessar mundir, enda um undirstöðu lífskjara næstu missera að ræða.

Góða helgi,

Drífa Snædal

forseti ASÍ

DEILA