Laxeldið á Vestfjörðum: 73% eigið fé í stóru fyrirtækjunum

Frá Dýrafiði.

Laxeldisfyrirtækin á Vestfjörðum Arnarlax og Arctic Sea Farm eru vel fjármögnuð og standa fjárhagslega vel. Skuldlaust eigið fé þeirra er hvorki meira né minna en 73% af bókfærðum eignum.

Samanlagar bókfærðar eignir eru 200 milljónir evra og þar eru 147 milljónir evra eigið fé. Í íslenskum krónum eru eignirnar 30 milljarðar króna og 22 milljarðar króna eru skuldlausar.

Stærstur hluti eignanna er lífmassinn, það er laxinn í kvíunum en hann er metinn á 90 milljónir evra eða nærri 14 milljarða króna.

Arnarlax er nokkurn veginn tvöfalt stærra en Arctic Sea Farm með eignir upp á 135 milljónir evra og Arctic með 65 milljónir evra.

Bæði fyrirtækin eru á opnum hlutabréfamarkaði þar sem hlutabréfin ganga kaupum og sölum án hindrana en undir eftirliti Kauphallarinnar. Fyrir vikið gilda ströng lagaákvæði um upplýsingagjöf um starfsemina og viðskipti með hlutabréfin. Markaðsvirði fyrirtækjanna er mun hærra en nemur bókfærðu eigin fé sem lýsir því að kaupendur hlutabréfanna telja að góður hagnaður verði af laxeldinu á næstu árum. Ekki hvað síst felst í markaðsvirðinu mikil tiltrú á náttúrulegum aðstæðum í vestfirsku fjörðunum fyrir laxeldi.

Markaðsvirki Arnarlax er um 69 milljarðar íslenskra króna miðað við að gengi norsku krónunnar sé 15,4 ísk og markaðsvirki Arctic Sea Farm er um 34 milljarðar króna. Samanlagt markaðsvirði fyrirtækjanna tveggja er um 103 milljarðar íslenskra króna.

DEILA