HSV: ekkert ofbeldismál tilkynnt

Ekkert ofbeldismál hefur verið tilkynnt til Héraðssambands Vestfirðinga, HSV. Stjórn sambandsins hefur fundað sérstaklega vegna umræðna í samfélaginu og fór sérstaklega yfir viðbragðsáætlun.

Þetta kemur fram í svörum frá HSV við fyrirspurn frá Ísafjarðarbæ, sem Karen Gísladóttir nefndarmaður í íþrótta- og tómstundanefnd bar fram.

Spurt var hvernig tekið væri á ofbeldismálum sem kæmu upp innan HSV og hvort til væri viðbragðsáætlun.

HSV er með viðbragðsáætlun sem tekur yfir ofbeldismál segir í svarinu og er hún aðgengileg á netinu. „Viðbragðsáætlunin greinir ítarlega frá því hvernig skuli bregðast við ofbeldi af öllu tagi sem og óæskilega hegðun. Þessi viðbragðsáætlun var unnin í tengslum við vinnu HSV að gerast fyrirmyndarhérað og var samþykkt af aðildafélögum HSV á ársþingi þess.

HSV er með skýra afstöðu gagnvart ofbeldismálum af hvaða tagi sem er, það er ekki liðið innan okkar raða. Allir eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu. Einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi, í hvaða mynd sem það birtist, má ekki viðgangast.“

HSV getur þó ekki gripið inn í mál sem ekki berst formlega til HSV og því hefur HSV ítrekað það til aðildarfélaga að alltaf beri að tilkynna allt ofbeldi, sama af hvaða tegund það er.
Rétt verkferli er að ábyrgðaraðili kemur tilkynningu til stjórnar eða félags, félagið kemur ábendingu til HSV og HSV vinnur málið áfram í samráði við Fagráð Æskulýðsvettvangs.

Öðru máli gegnir um einstakling sem ásakaður sem gerandi og er orðinn 18 ára. Þá eru ekki til neinar leiðbeiningar og reglur þar að varðandi og hefur íþróttahreyfingin í raun engar heimildir til að bregðast við á nokkurn hátt en það er nú til skoðunar hjá ÍSÍ og mun HSV að sjálfsögðu fylga þeim reglum segir að lokum í svarinu.

DEILA