Hlíf I : hætt við sölu í bili

Dagdeild aldraða er 38% undir áætlun í launakostnaði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að selja ekki að svo stöddu 5 íbúðir á Hlíf I og fól bæjarstjóra að setja þær í útleigu.

Í minnisblaði frá sviðsstjóra velferðarsviðs til bæjarráðs segir að á biðlista eftir leiguhúsnæði séu tvenn hjón og tuttugu einstaklingar. Af þeim eru fjórir sem ekki eiga lögheimili í sveitarfélaginu og tveir sem vilja frekar kaupa íbúð en leigja.

Varðandi hjónin eru þau ekki metin í brýnni þörf og sjö einstaklingar hafa litla brýna þörf fyrir þjónustuíbúð. Meðalaldur þeirra tuttugu einstaklinga sem hafa sótt um íbúð á Hlíf I er 80,55 ár.

Ekki selja fleiri en þrjár íbúðir

Ástand íbúðanna fimm er misjafnt, segir í minnisblaðinu, frá því að það þurfi einungis að mála til þess að endurnýja þurfi þær alveg. Kostnaður vegna þessa getur spannað frá kr. 500.000 til kr. 2.000.000. Komi til þess að samþykkt verði að selja hluta íbúðanna er lagt til að þær verði ekki fleiri en þrjár á grundvelli biðlistans og einstaklinga í brýnni þörf.
Ný eignaskiptayfirlýsing er á lokastigi í vinnslu, þ.e. ein eignaskiptayfirlýsing fyrir allt húsið. Þá hafa húsfélögin verið sameinuð og því er öll sýsla með skiptingu að verða miklum mun einfaldari en áður var.

Bókfært verð íbúðanna c.a. kr. 500.000. Því hefur sala á þeim lítil áhrif á eignir. Söluhagnaður yrði þá söluverð að frádregnu bókfærðu verði. Engin lán hvíla á íbúðunum sem þyrfti að greiða upp við sölu.

Þegar mat er gert á aðstæðum umsækjenda er tekið tillit til eftirfarandi: Líkamlegs og andlegs heilsufars, aldurs, tíma frá því umsókn barst, félagslegra aðstæðna, húsnæðisaðstæðna og þarfar fyrir persónulegan stuðning. Vakin er athygli á að eigna- og tekjumörk eru ekki komin inn í reglur um úthlutun íbúða, eins og stefnt hefur verið að, en breyting á reglum er í vinnslu.

DEILA