Fræðslumiðstöð um fiskeldi opnuð í Reykjavík

Sigurður Pétursson, stofnandi Lax-Inn og Katrín Unnur Ólafsdóttir, verkefnisstjóri Lax-Inn. Katrín segir nýju fræðslu­miðstöðina hafa fengið mjög góð og jákvæð viðbrögð.

Lax-Inn er ný fræðslumiðstöð fiskeldis á Grandagarði í Reykjavík, sem var opnuð formlega 10. september. Þar er nú hægt að kynna sér starfsemi fiskeldis með beintengingu myndavéla bæði í land- og sjóeldi á landsbyggðinni ásamt ýmsu öðru fræðsluefni um þessa atvinnugrein.

Það er Sigurður Pétursson, sem er stofnandi og eigandi nýja fræðslusetursins, en þetta mun vera fyrsta fræðslusetrið um fiskeldi á Íslandi sem kynnir framleiðslu, tækni og afurðir úr íslensku laxfiskaeldi.

Stofnun fræðslumiðstöðvar um laxfiskaeldi á Íslandi eykur þannig þekkingu almennings á því hvernig eldisfyrirtækin vinna að því í samstarfi við alþjóðleg og viðurkennd vottunarfyrirtæki að lágmarka umhverfisáhrif eldisins. Farsæl sókn á erlenda markaði byggir ekki síst á því að almenningur fái upplýsingar um stöðu íslensks fiskeldis, möguleika þess sem og tengdra tæknifyrirtækja.

Fræðslusetrið styður við markaðssókn íslenskra fiskeldisfyrirtækja og stuðlar að nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.

DEILA