Fjórðungsþing: hægagangur stjórnvalda mun stöðva framþróun samfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum

Í ályktun 66. Fjórðungsþings Vestfirðinga, sem haldið var á Ísafirði 22. og 23. október er kallað eftir því að stjórnvöld skili skili tillögu um tímasett verkefni til þess að tryggja öryggi og framboð á raforku á Vestfjörðum á fyrri hluta árs 2022. Minnt er á að Alþingi samþykkti árið 2018 að Vestfirðir verði í forgangi varðandi raforkumálum og í febrúar 2021 hafi Iðnaðarráðherra lagt fram á Alþingi stefnuskjöl stjórnvalda um orkumál á Íslandi með þeim markmiðum að stuðla að jöfnun samkeppnisstöðu landshluta um aðgengi og afhendingaröryggi raforku.

Fjórðungsþingið hvetur iðnaðarráðherra til þess að beina því til starfshóps ráðherra um orkumál á Vestfjörðum, að hraða störfum og setja sér markmið um að skila niðurstöðu á fyrri hluta árs 2022. Skorað er á ráðherrann og starfshópinn að nýti þau gögn sem liggja nú þegar fyrir og skila tillögu um tímasett verkefni á fyrri hluta árs 2022.

Fjórðungsþingið hefur ítrekað lýst yfir stuðningi við Hvalárvirkjun auk þess sem kallað er eftir hringtengingu á Vestfjörðum.

Hægagangur stöðvar framþróun á Vestfjörðum

Á ályktuninni segir orðrétt:

„Uppbygging atvinnulífs og samfélaga á Vestfjörðum hefur gengið hratt fyrir sig á undanförnum árum auk þess sem ný markmið hafa verið sett um að hraða orkuskiptum. Markmið stjórnvalda í orkustefnu styðja við þessa þróun en ekki hafa verið settar fram tímasett verkefni til að ná því markmiði á Vestfjörðum. Að óbreyttu mun þessi staða nær stöðva framþróun samfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum.“

Fagnar áhuga á vindorku

Fjórðungsþingið fagnar öllum aðgerðum sem lúta að því að auka raforkuöryggi og framleiðslu á Vestfjörðum. Þá fagnar þingið þeim áhuga sem vindorkuframleiðendur hafa sýnt svæðinu.
„Fyrir liggur skýrsla verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða frá því í mars 2021. Skýrslan gerir m.a. ráð fyrir vindorkugarði í Garpsdal í nýtingarflokk, en undirbúningur er langt kominn. Skipulagsstofnun hefur ekki samþykkt skipulagstillögur um vindorkugarða vegna skorts á lagaheimildum um vindorku að mati stofnunar.
Mikilvægt er að finna vindorku framtíðar farveg innan verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlun). Eða leita annarra lausna er nýtingu vindorku til að leysa úr þeirri pattstöðu sem rammaáætlun er í.“

Frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga.

DEILA