Bíldudalur: bætt við iðnaðar- og hesthúsalóðum

Horft yfir Bíldudalsvoginn.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðar- og hesthúsasvæði við Járnhól á Bíldudal. Breytingin snýr að stækkun svæðisins niður að Bíldudalsvegi þar sem bætt er við átta lóðum.

Einnig eru gerðar breytingar á lóðum 10-16 þar sem þær eru stækkaðar og bætt er við aðkomuvegi að lóð 14. Tillagan er í samræmi við afmörkun iðnaðarsvæðis I2 í endurskoðuðu aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035. 

Breytingin er gerð vegna aukinnar eftirspurnar eftir iðnaðar- og athafnalóðum innan Bíldudals vegna aukinna umsvifa á svæðinu en einnig til þess að koma fyrir sjálfsafgreiðslulóð fyrir eldsneyti á horni Bíldudalsvegar og aðkomu að iðnaðar- og hesthúsasvæðinu.

Lóðirnar átta sem bætt er við eru frá 900 – 1400 fermetrar að stærð. Gert er ráð fyrir nýrri götu milli þeirra.

Á jaðarlóðum sem vísa að Bíldudalsvegi eru gerðar kröfur um útlit og form bygginga. Þær verði málmklæddar a.m.k. að hluta til að gefa heildstætt yfirbragð.

Þakform bygginga er mænsþak með 15° lágmarkshalla.

Skipulagsfulltrúa var falið að auglýsa tillöguna skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

DEILA