Fram kemur í fundargerð íbúðasamtakanna Átak á Þingeyri frá 18. ágúst að Ísafjarðarbær hafi ekki svarað erindum samtakanna um skipulagsmál, meltutank, slátt og garðverk og virkjanaáform fyrir botni Dýrafjarðar.
Bókað er að ekki sé ásættanlegt að svör berist ekki og ákveðið að formaður Átaks ræði þetta á fundi með bæjarritara
og bæjarstjóra.
Á fundi samtaanna í byrjun júní var tekin fyrir ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 18. mars sem heimilaði málsmeðferð á skipulags og matslýsingum fyrir Botnsvirkjun og Hvallátursvirkjun í Dýrafirði.
Átak óskaði eftir nánari upplýsingum um fyrirhugaðar áætlanir um virkjanir í botni Dýrafjarðar en ekkert samráð hefur verið haft við íbúa varðandi þetta mál, segir í bókun Átaks:
i) „Í umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar frá 10. febrúar 2021 segir: „Nefndin bendir þó á að svæðið er undir friðlýsingu frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem og hverfisvernd í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og því er ekki samræmi milli áforma og aðalskipulags.“
Virkjanir í botni Dýrafjarðar myndu væntanlega hafa mikil áhrif á náttúru, umhverfi og ásýnd Dýrafjarðar og því eðlilegt að íbúum sé gerð grein fyrir þessum framkvæmdum og áhrifum þeirra. Hér er ekki einungis átt við umhverfisleg áhrif heldur einnig efnahags- og samfélagsleg áhrif (skapar þetta störf á svæðinu til lengri tíma litið? Hefur þetta áhrif á orkuöryggi á svæðinu? Hvaða áhrif hefur þetta á ferðaþjónustu? Hvað með framtíðaráform um þjóðgarða á Vestfjörðum? o.s.frv.).
ii) Svæðið nýtur hverfisverndar í núverandi aðalskipulagi. Öll áform um virkjanir kalla því á grundvallarbreytingu á núverandi aðalskipulagi og mun væntanlega hafa umtalsverð og varanleg áhrif á umrætt svæði. Í því ljósi er mikilvægt að fram fari ítarleg kynning og umræða um fyrirhugaðar virkjanaáætlanir og áhrif þeirra. Málið varðar alla íbúa svæðisins.“
.