Steinbítur og hlýri

Ferðir dýra hafa löngum verið mönnum hugleiknar og hafa merkingar verið notaðar til að kanna far þeirra. Hjá Hafrannsóknastofnun er í gangi rannsókn á fari steinbíts og hlýra. Í henni eru notuð rafeindamerki sem mæla hita, dýpi og tíma með reglulegu millibili. Á meðan steinbítur eða hlýri liggur kyrr við botn breytist dýpið í takt við sjávarföllin, það eykst á flóði og minnkar um fjöru. Tímasetning sjávarfalla er ólík eftir stöðum þannig að með því að bera dýptarferil, sem skráður er í rafeindamerkið, saman við sjávarfallalíkan má áætla hvar steinbíturinn hefur verið á hverjum tíma.

Á árunum 2012-2015 merkti Hafrannsóknastofnun 923 steinbíta, þar af 358 með rafeindamerki, á sex stöðum við Ísland eða á einu hrygningarsvæði, Látragrunni og fimm fæðusvæðum eða í Skálavík við Bolungarvík, út af Hornbjargi, á Glettinganesgrunni, við Papey og í Faxaflóa. Á árunum 2015-2016 voru merktir 102 hlýrar, þar af 44 með rafeindamerki. Hlýrarnir voru merktir í kantinum út af Vestfjörðum. Alls hafa endurheimst 87 steinbítar og 18 hlýrar með rafeindamerki.

Búið er að vinna hluta af niðurstöðunum varðandi steinbítsmerkinguna og hafa þær verið birtar í vísindatímaritinu Fisheries Research (https://doi.org/10.1016/j.fishres.2019.03.001) og í fiskifréttum (https://www.fiskifrettir.is/frettir/far-steinbits-og-tryggd-vid-hrygningar-og-faedusvaedi/159033/). Helstu niðurstöðurnar voru að steinbítur sem fór af Látragrunni kom þangað aftur til hrygningar í a.m.k. 95% tilvika.

Varðandi fæðusvæðin þá komu steinbítar í 87% tilvika aftur á það fæðusvæði sem þeir höfðu verið merktir á. Steinbítur kemur almennt á Látragrunn um miðjan ágúst eftir um tveggja vikna hrygningargöngu. Flestar hrygnurnar fara síðan af Látragrunni um áramótin en hængarnir í seinni hluta febrúar, en talið er að þeir séu lengur á hrygningarsvæðum en hrygnur því þeir gæta eggjaklasanna. Steinbítur sem merktur var á fæðuslóð endurheimtist úr merkingu í Skálavík, á Látragrunni auk tveggja annara hrygningarsvæða, sama átti við um steinbít sem endurheimtist úr merkingunni í Faxaflóa.

Aðeins einn steinbítur hefur endurheimst af þeim steinbítum sem merktir voru á Glettinganesgrunni og fór sá steinbítur á annað hrygningarsvæði en Látragrunn. Engin af endurheimtum steinbítum sem merktir voru út af Horni eða við Papey fóru á Látragrunn en frá báðum svæðum fóru steinbítar á tvö önnur hrygningarsvæði. Steinbítar af öllum þessum svæðum virðast að hluta til blandast saman á fæðu- og hrygningarslóð nema steinbítur út af Papey. Aðeins einn steinbítur hefur endurheimst frá Gettinganesgrunni og því lítið hægt að segja um það svæði. Hugsanlega er steinbíturinn við Papey lítil stofneining sem þolir ekki miklar veiðar og því skynsamlegt að fylgjast vel með veiðiálaginu þar.

Til stendur á þessu ári að byrja að vinna frekar úr niðurstöðum sem fengust úr steinbítsmerkingunni og verður þá notað sjávarfallalíkan en með því er hægt að greina með um 20 km nákvæmni hvar steinbíturinn hefur verið á hverjum tíma. Þá verður m.a. hægt að staðsetja önnur hrygningarsvæði steinbíts en Látragrunn og hvaða leið fiskurinn fer í hrygningar- og fæðugöngum.

Stefnt er að því að byrja að greina gögnin úr hlýramerkingunni árið 2021.

DEILA