Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stendur að fjárfestingarátaki um uppbyggingu varanlegra salerna á áningarstöðum við hringveginn.
Fjárfestingarátakið er liður í að sporna við niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Um er að ræða tímabundið fjárfestingarátak.
Markmið fjárfestingarátaksins er að byggja upp varanleg salerni á áningarstöðum við hringveginn. Leitast verði við að dreifing salernanna um einstaka landshluta verði sem jöfnust og hugað verði að aðgengi fyrir alla. Verkefni þar sem um er að ræða 40-50 km fjarlægð frá næsta þéttbýli njóta forgangs, einkum á sunnanverðum Vestfjörðum og Norð-Austurlandi.
Þetta gæti líka átt við um þjóðveginn í Ísafjarðardjúpi því þar eru meira en 50 km í næsta þéttbýli.
Þeir sem geta sótt um að taka þátt eru einstaklingar og lögaðilar.
Fjárfestingarátakið nemur 100 m.kr. og verður þeim úthlutað í samræmi við fjölda umsókna og upphæð hverrar umsóknar.