Lilja Rafney: stoltust af strandveiðikerfinu

Bæjarins besta leitaði til Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem nú lætur af þingmennsku eftir 12 ár og innti hana fyrst eftir mati hennar á úrslitum kosninganna og hver hafi verið helsti ávinningur af ríkisstjórnarþátttöku flokksins.

Erum stærsti vinstri flokkurinn í landinu

Útkoman er á mörkunum að vera ásættanleg en við erum þó enn stærsti vinstri flokkurinn í landinu.  Ég tel vissulega að innistæða hefði verið fyrir miklu betri útkomu miðað við frábæra forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við að leiða þessa ríkisstjórn við fordæmalausar aðstæður og hafa samhliða með okkar öflugu ráðherrum komið fjölda framfaramála í gegn sem við settum inn í stjórnarsáttmálann. Þar má nefna uppbyggingu velferðarsamfélagsins , innviðauppbyggingu, bættum búsetuskilyrðum um land allt og áherslu á náttúruvernd og umhverfismál. Ef VG tekst að ná ásættanlegri niðurstöðu á þesssum nótum og tekur föstum tökum á eflingu sjávarbyggðanna með fjölbreyttu útgerðarformi og vinnur áfram að bættum kjörum þeirra verst settu sem ég tel mjög brýnt  þá eigum við að axla ábyrgð og vera í forystu áfram við stjórn landsins.

Síðustu fjögur árin standa upp úr

Hvað stendur upp úr hjá þér eftir 12 ár á Alþingi og hvað tekur við?

Þessi 12 ár hafa verið mjög krefjandi og lærdómsrík. Fyrstu árin eftir Hrun tóku verulega á að vera í stjórnarmeirihluta og axla alla þá ábyrgð sem erfiðum aðgerðum fylgdu en  voru óumflýjanlegar á þeim tíma og ekki til vinsælda fallnar eðlilega. Síðan koma 4 ár í stjórnarandstöðu sem eru líka krefjandi með öðrum hætti, að veita sitjandi stjórnvöldum aðhald en vera í leiðinni að gera góðar breytingar á ýmsum málum til batnaðar í fastanefndum þingsins og leggja fram mál sem sum hver náðust í gegn með samstöðu. Síðustu 4 árin standa upp úr í mínum huga þar sem við vorum ráðandi afl í ríkisstjórn en samt með vindinn í fangið að hafa farið í það stjórnarsamstarf. Ég sat sem formaður atvinnuveganefndar sl.4 ár og átti gott samstarf við nefndarmenn þar þvert á flokka og unnum við saman að ýmsum stórum málum sem lúta að eflingu atvinnulífs í landinu á sviði sjávarútvegs,landbúnaðar,fiskeldis,nýsköpunar hjá litlum sem og stærri fyrirtækjum og eflingu skapandi greina. Stoltust er ég af því að hafa sett á dagskrá og leitt þá vinnu sem tók 2 ár að koma endanlega á eflingu Strandveiða með dagakerfi og jafnræði á milli landshluta. Þar náðist ekki að reka endahnútinn á að tryggja afla í 48 daga en það er nauðsynlegt að gera og að koma á leigupotti ríkisins fyrir minni útgerðir og stokka upp almennabyggðakvótann svo hann gagnist þeim sem honum var ætlaður í upphafi.  Auðvita hefur maður komið að afgreiðslu fjölda góðra mála sem of langt mál væri að telja upp sem ég er ánægð með og eru til framfara. Ég hef sem betur fer átt mjög gott samstarf við þingmenn úr öllum flokkum í gegnum tíðina. Við erum öll að leita leiða til að gera samfélagið betra þó okkur greini stundum á um leiðir að því marki, Alþingi er góður vinnustaður sem ég ber virðingu fyrir.

Kannski í bæjarmálin sem bæjarstjóraefni

Hvað tekur við ?

Ég ætla að leyfa mér að slaka aðeins á eftir erfitt eitt og hálft ár vegna veikinda mannsins míns og mikillar vinnu sem fylgt hefur þingstörfunum og nú kosningunum. Hvað síðan verður er óráðið ég er full orku og áhuga á þjóðmálum og öllu mögulega svo það verður örugglega eitthvað skemmtilegt og áhugavert sem ég tek mér fyrir hendur. Það hefur verið nefnt við mig hvort ég helli mér ekki aftur í bæjarmálapólitíkina og verði bæjarstjóraefni. Hver veit, ekki ég á þessari stundu.

DEILA