Hátíðarathöfn í Suðureyrarkirkju eftir umfangsmiklar endurbætur

Sunnudaginn 5. september verður haldin hátíðarathöfn í Suðureyrarkirkju til að fagna því að endurbótum á kirkjunni er nú formlega lokið. Endurbótunum er lokið ári eftir að fjáröflunarverkefni hófst þar sem safnað hefur verið fyrir framkvæmdunum.

Fyrir ári síðan kom hópur Súgfirðinga saman og stofnaði fjáröflunarnefnd og framkvæmdaráð þar sem markmiðið var að safna fjármagni og stýra framkvæmdunum. Allsherjar yfirhalning hefur átt sér stað á kirkjunni en skipt hefur verið um þak, allir ytri gluggar hafa verið gerðir upp, nýtt múrverk að utan ásamt öðrum framkvæmdum að innanverðu og utanverðu.

Fjáröflunin gekk vonum framar og söfnuðust 22.519.790 kr gefin af einstaklingum, félögum og fyrirtækjum tengdum Suðureyri eða öðrum sem hafa viljað sýna stuðning í verki.

Fyrir 84 árum síðan, ágúst 1937, var Suðureyrarkirkja vígð eftir að Súgfirðingar höfðu safnað fyrir byggingu hennar í 11 ár. Kirkjan var þá full fjármögnuð af Súgfirðingum og tengdum fyrirtækjum. Í gegnum tíðina hefur kirkjan notið hlýhug og velvilja velunnarra sem lýsir sig í því að kirkjan er er prýdd gersemum sem eru m.a. steindir innri gluggar eftir Benedikt Gunnarsson sem eru listaverk sem velunnarar gáfu til minningar um látna ástvini, altaristafla, tvær kirkjuklukkur, brúðarstólar, skírnarfontur og ýmislegt annað.

Kirkjan stendur enn og ný stolt og glæsileg sem einkennistákn bæjarins.

Hátíðarathöfnin hefst kl. 11 á sunnudaginn í Suðureyrarkirkju og allir eru velkomnir.

 

DEILA