Framsóknarflokkurinn fékk 3 þingmenn

Úrslit kosninganna 2021 í Norðvesturkjördæmi. Mynd: Mbl.is

Framsóknarflokkurinn var ótvíræður sigurvegari kosninganna í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum á laugardaginn. Flokkurinn bætti við sig 7,4% atkvæði og fékk 25,8% greiddra atkvæða og er stærsti flokkur kjördæmisins. Flokkurinn vann eitt þingsæti og fékk þrjá þingmenn kjörna. Halla Signý Kristjánsdóttir, sem var í 3. sæti náði kjöri og heldur þingsæti sínu. Er hún eini Vestfirðingurinn, búsettur á Vestfjörðum, sem náði kjöri í þessum kosningum.

Viðreisn fékk 6,2% atkvæða og bætti 3,7% við fylgið í síðustu kosningum. Er það næstmesta fylgisaukning í kjördæminu. Þriðji flokkurinn sem bætti verulegu við fylgi sitt er Flokkur fólksins, sem fékk 8,8% og jók fylgið um 3,5% frá kosningunum 2017.

Endurtalning í Suðurkjördæmi gæti snúið öllu til baka

Flokkur fólksins fékk kjördæmakjörinn þingmann en Viðreisn missti jöfnunarsætið sem flokknum var reiknað að lokinni talningu í gærmorgun eftir að í ljós kom í gærkvöldi að mistök höfðu orðið í talningu og Viðreisn reiknuð atkvæði sem merkt voru Sjálfstæðisflokknum. Það mál er ekki útkljáð enn því beðið hefur verið um endurtalningu í Suðurkjördæmi vegna þess að aðeins 7 atkvæðum munaði á Vinstri grænum og Miðflokki. Miðflokkurinn fékk fleiri atkvæði og þar með kjördæmissæti en Vinstri græn fengu fyrst jöfnunarsætið en sitja nú uppi með sárt ennið eftir leiðréttinguna sem flutti jöfnunarsætið til Viðreisnar. fari svo að Vinstri græn hafi betur eftir endurtalningu fer af stað sama hringekja á þingsætum og var í gær en nú í öfugri röð og eftir hana yrði allt eins og upphaflega var tilkynnt og Guðmundur Gunnarsson jöfnunarmaður í nýjan leik.

Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur tapa 8,5%

Hinir ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu báður fylgi frá síðustu kosningum. Vinstri grænir féllu úr 17,8% niður í 11,5% eða um 6,6%. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einnig fylgi og fór úr 24,5% í 22,6%. Samanlagt töpuðu þeir 8,5% atkvæða en fengu sama fjölda þingsæta og síðast eða þrjú. Sjálfstæðisflokkurinn missti forystuna í kjördæminu yfir til Framsóknarflokksins.

Miðflokkurinn fékk slæma kosningu og missti helming fylgisins frá 2017. Voru þeir með 14,2% en fengu nú 7,4%. Flokkurinn hafði áður 2 þingmenn en hafa nú aðeins einn.

Þá fékk Samfylkingin slaka kosningu, fór úr 9,7% niður í 6,9% og missti þingsæti sitt.

Alþingiskosningar
þingsætiflokkur20212017breyting
3Framsóknarflokkur25,818,47,4
Viðreisn6,22,53,7
1Flokkur fólksins8,85,33,5
1Miðflokkurinn7,414,2-6,8
Píratar6,36,8-0,5
1Vinstri grænir11,518,1-6,6
2Sjálfstæðisflokkurinn22,624,5-1,9
Björt framtíð0,8
Samfylking6,99,7-1,8
Sósialistaflokkurinn4,2
Frjálslyndi lýðræðisfl.0,4
100,1100,3

DEILA